Þór/KA í úrslit eftir sigur á Blikum

Tahnai Annis og Andrea Rut Bjarnadóttir eigast við á Kópavogsvellinum …
Tahnai Annis og Andrea Rut Bjarnadóttir eigast við á Kópavogsvellinum í dag en þær voru báðar á skotskónum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þór/KA leikur til úrslita í deildabikarkeppni kvenna í knattspyrnu, Lengjubikarnum, en Akureyrarliðið tryggði sér það með því að sigra Breiðablik á Kópavogsvellinum í undanúrslitum keppninnar í kvöld, 2:1.

Þór/KA mætir Þrótti úr Reykjavík eða Stjörnunni í úrslitaleiknum þann 1. apríl en þau mætast í Laugardalnum á laugardaginn.

Breiðablik komst yfir strax á 3. mínútu leiksins þegar Andrea Rut Bjarnadóttir skoraði með skoti rétt innan vítateigs í hægra hornið, 1:0.

Norðankonur jöfnuðu metin í 1:1 á 28. mínútu eftir laglegt spil en Tahnai Annis fékk þá boltann frá Ísfold Marý Sigtryggsdóttur inn í vítateiginn vinstra megin og renndi honum í netið.

Á 80. mínútu fékk Annis boltann eftir misheppnaða hreinsun Telmu Ívarsdóttur í marki Blika, lagði hann fyrir sig og skoraði með föstu skoti af 25 metra færi í vinstra hornið niðri, 2:1 fyrir Þór/KA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert