Þriggja marka skellur í Zenica

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta mátti þola tap, 3:0, í fyrsta leik sínum í undankeppni EM 2024 er liðið mætti Bosníu á Bilino Polje-vellinum í Zenica í kvöld.

Bosníska liðið var mikið betri aðilinn í upphafi leiks og skapaði sér nokkur færi á fyrstu tíu mínútunum.

Rúnar Alex Rúnarsson varði í tvígang vel, fyrst frá Ermedin Demirovic á 5. mínútu þegar hann slapp í gegn, og síðan Amar Dedic þegar hann átti hættulegan skalla að marki á 10. mínútu.

Hann kom hins vegar engum vörnum við á 14. mínútu þegar Rade Krunic skoraði af stuttu færi eftir mikinn klaufagang í vörn íslenska liðsins eftir sókn Bosníumanna upp hægri kantinn. Illa gekk að koma boltanum í burtu og Krunic refsaði með skoti í varnarmann og í netið af stuttu færi, 1:0.

Bosníumenn voru áfram mun sterkari aðilinn eftir markið og íslenska liðið var í vandræðum. Bæði Hákon Arnar Haraldsson og Guðlaugur Victor Pálsson fengu gult spjald á fyrstu 20 mínútunum og íslenska liðið var undir í miðjubaráttunni, skapaði sér lítið og varðist illa.

Íslenska liðið átti sinn besta kafla þegar líða tók á hálfleikinn og átti Jóhann Berg Guðmundsson skalla rétt fram hjá á 33. mínútu.

Ísland var hins vegar enn brothætt í vörninni og annað markið kom á 40. mínútu þegar Krunic skoraði aftur, aftur eftir að íslenska liðinu gekk illa að koma boltanum í burtu í teignum, 2:0.

Eftir markið var Bosnía nær því að skora þriðja markið en Ísland að minnka muninn, en mörkin urðu ekki fleiri í fyrri hálfleik.

Íslenska liðið var mikið með boltann í upphafi seinni hálfleiks en gekk sem fyrr illa að reyna mikið á vörn og markvörð Bosníu. Heimamenn bættu svo við þriðja markinu á 63. mínútu þegar Amar Dedic skoraði með góðu skoti rétt utan teigs, á meðan varnarmenn Íslands hörfuðu og settu litla pressu á Bosníumanninn, 3:0.

Ísland skapaði sér loks ágætt færi á 79. mínútu þegar Alfreð Finnbogason skallaði fram hjá markinu eftir fyrirgjöf Mikaels Andersons frá hægri. Fjórum mínútum síðar átti Hákon Arnar Haraldsson skalla sem markvörðurinn varði í horn.

Íslenska liðið var með boltann meira og minna á lokakafla leiksins og í uppbótartíma átti Jóhann Berg Guðmundsson hörkuskot sem markvörðurinn varði vel í horn.

Næsti leikur Íslands er gegn Liechtenstein á útivelli á sunnudaginn kemur.

Bosnía 3:0 Ísland opna loka
90. mín. Ísland fær hornspyrnu Mikael Anderson stöðvaður og bjargað i horn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert