Ég geri allt fyrir Ísland

Aron Einar Gunnarsson fagnar þriðja marki sínu ásamt liðsfélögum í …
Aron Einar Gunnarsson fagnar þriðja marki sínu ásamt liðsfélögum í dag. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Við vorum staðráðnir í að svara,“ sagði fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson eftir stórsigur Íslands á Liechten­stein, 7:0, í Vaduz í Liechten­stein í undan­keppni EM karla 2024. 

Aron Einar skoraði þrennu í leiknum, tvö skallamörk og svo þriðja af vítapunktinum. Aron fjölgaði þar með landsliðsmörkum sínum úr tveimur í fimm í dag.

Ísland mátti þola erfitt tap, 0:3, fyrir Bosníu á fimmtudaginn var en fyrirliðinn spilaði ekki þann leik þar sem hann tók út bann. Aron sagði að landsliðið hefði verið staðráðið í að svara fyrir Bosníuleikinn í samtali við Viaplay eftir leik. 

„Ég held ég geti sagt að ég sé sáttur með þetta, við vorum staðráðnir í því að svara fyrir þennan leik á móti Bosníu. Við byrjum af krafti, vorum jákvæðir og leikplanið virkaði vel. 

Við vissum að þeir myndu gefa okkur smá svæði á vængjunum og við reyndum að flýta boltanum hratt á milli kanta, sköpuðum fullt af færum, þannig ég er bara virkilega ánægður með hvernig við stigum upp. 

Það þýðir ekki að hengja haus, við vitum það. Þessi undankeppni er langt ferli og það er alltaf bara einbeiting á næsta leik. Ég er ánægður með hvernig karakter við sýndum í dag. Það var enginn á hælunum og enginn að hengja haus og fara að vorkenna sjálfum sér, það er ekki í boði. 

Ég var ánægður með frammistöðuna, mörkin sem við skorum og að halda hreinu.“

Afmælisgjöf fyrir son minn  

Aron var síðar spurður út í þrennuna, eðlilega. Hann sagðist alltaf vera ánægður er hann hjálpar liðinu, sama hvar það sé. 

„Ég er ánægður að geta hjálpað liðinu eins og alltaf. Hvort sem það sé að skora mörk eða halda hreinu skiptir mig engu máli. Ég geri allt sem ég get fyrir Ísland og þetta er skemmtileg afmælisgjöf fyrir Óliver son minn, sem er átta ára í dag, þannig hann fær þennan bolta þegar ég kem heim.“

Hvað gefur þessi sigur ykkur? 

„Sjálfstraust aðallega, við þurftum á því að halda. Við getum byggt ofan á þetta og lært af Bosníu leiknum og áfram gakk, það er það eina sem hægt er í þessu.

Við erum bara ánægðir með þetta verkefni, þótt við höfum byrjað illa er ég ánægður með hvernig við stigum upp í dag.“

Kom eitthvað annað til greina en að þú tækir vítið til að fullkomna þrennuna? 

„Andri var eitthvað að gera sig líklegan þarna, en hann áttaði sig svo að ég væri á þrennunni þannig ég fékk að taka hana. Það er skemmtilegt að fá boltann,“ sagði Aron að lokum í samtali við Viaplay.

mbl.is