Ég tók áhættu og vann

Tony Knapp, fyrrverandi landsliðsþjálfari í knattspyrnu.
Tony Knapp, fyrrverandi landsliðsþjálfari í knattspyrnu. Reuters

Englendingurinn Tony Knapp, sem þjálfaði íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu í tvígang, féll frá í vikunni, 86 ára gamall. Hann er frægastur fyrir að hafa leitt liðið til sigurs á harðsnúnu liði Austur-Þjóðverja árið 1975. 

„Stóra stundin í íslenzkri knattspyrnu rann upp í gærkvöldi er íslenzka landsliðið gekk með sigur af hólmi yfir Austur-Þjóðverjum í landsleik sem fram fór á Laugardalsvellinum. 2-1 urðu úrslit leiksins, og ef það er mögulegt að vera óánægður með nokkurn skapaðan hlut hjá íslenzka landsliðinu var það helzt það, að því skyldi ekki takast að skora fleiri mörk í fyrri hálfleik, er það réð bókstaflega lögum og lofum á vellinum, og oft var um hreina nauðvörn að ræða hjá Þjóðverjum, liðinu sem varð í 5.-6. sæti í síðustu heimsmeistarakeppni, og vann þá ekki ómerkara afrek en það að verða eitt liða til þess að sigra vestur-þýzku heimsmeistarana.“

Þessi klausa úr Morgunblaðinu frá 6. júní 1975 segir allt sem segja þarf um þennan fræga kappleik sem án efa var hápunkturinn á ferli þjálfarans, Englendingsins Tonys Knapps, sem stýrði liðinu á árunum 1974-77 og svo aftur árin 1984-85. Knapp kvaddi þennan heim í vikunni, 86 ára að aldri. 

Ennþá á uppleið

„Ég vissi ekki hvernig þeir myndu leika, ég tók áhættu og vann [...] Íslenzka landsliðið á enn eftir mörg verkefni óleyst í sumar en liðið er ennþá á uppleið og ég veit að það á eftir að gera stóra hluti í framtíðinni,“ sagði Tony Knapp við Morgunblaðið eftir leik.

Fjöldi glaðra áhorfenda óskaði íslensku landsliðspiltunum til hamingju með sigurinn og meðal þeirra var Geir Hallgrímsson forsætisráðherra. „Þetta var stórkostlegur leikur,“ sagði Geir. „Krafturinn og baráttuviljinn hjá landsliðspiltunum var ótrúlegur.“

Jóhannes Eðvaldsson, fyrirliði Íslands, skorar gegn Austur-Þjóðverjum sumarið 1975.
Jóhannes Eðvaldsson, fyrirliði Íslands, skorar gegn Austur-Þjóðverjum sumarið 1975. Morgunblaðið/Friðþjófur Helgason


Ellert B. Schram, formaður KSÍ, tók í sama streng: „Það er ánægjulegt fyrir okkur forystumennina þegar slíkur árangur næst eins og í kvöld. Þetta er að mínu áliti mesta afrek íslenzkra knattspyrnumanna og „sensasjón" í knattspyrnuheiminum.“

Jens Sumarliðason formaður landsliðsnefndar sagði að reynt hefði verið að undirbúa liðið mjög vel og þjálfari liðsins hefði gert ótrúlega hluti en samt sem áður hefði enginn þorað að vonast eftir sigri.

Mörk Íslands í leiknum skoruðu Jóhannes Eðvaldsson, með bakfallspyrnu, og Ásgeir Sigurvinsson, með bylmingsskoti eftir stoðsendingu frá Sigurði Dagssyni markverði. Eru þau bæði enn í dag í hópi frægustu marka í landsleik. 

Við mættum þeim!

Knapp bjó lengi í Noregi og þaðan ræddi hann einmitt við vefsíðu Leicester City árið 2020. Spurður um landsliðsþjálfaraferilinn á Íslandi hafði hann þetta að segja: „Ég var að gera ágæta hluti hjá KR þegar maður að nafni Ellert Schram frá KSÍ sló á þráðinn til mín og kvaðst vilja bjóða mér starf landsliðsþjálfara. Ég var ekkert sérstaklega vel að mér og áttaði mig ekki á því fyrr en að hann nefndi það að Ísland myndi taka þátt í undankeppni HM. Ég hugsaði með mér: Ekki fer ég að sleppa því tækifæri! Á HM og EM fær maður að reyna sig við bestu landslið heims, eins og Þýskaland, Frakkland og Belgíu. Nefndu það bara, við mættum þeim!“

Hann bar íslenskum leikmönnum vel söguna. Þeir byggju upp til hópa að sterkum karakter. „Þegar ég sá þá tryggja að leikmenn hins liðsins fengju ekkert frelsi naut ég þess fram í fingurgóma. Þeir eru þannig gerðir að þeir efast ekki um að þeir geti staðið næsta manni á sporði.“

Nánar er fjallað um Tony Knapp í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »