Elstur til að skora þrennu fyrir Ísland

Aroni Einari Gunnarssyni fagnað eftir eitt markanna í Vaduz í …
Aroni Einari Gunnarssyni fagnað eftir eitt markanna í Vaduz í dag. Ljósmynd/Alex Nicodim

Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, varð í dag elsti leikmaðurinn sem skorar þrennu fyrir íslenska karlalandsliðið.

Aron er 33 ára og 11 mánaða gamall og er sá fyrsti sem skorar þrennu fyrir landsliðið eftir að hann verður þrítugur.

Arnór Guðjohnsen átti aldursmetið en hann var 29 ára og 11 mánaða gamall þegar hann skoraði fjögur mörk í sigri Íslands á Tyrklandi, 5:1, í vináttulandsleik á Laugardalsvellinum í júlí 1991.

Aron er ellefti Íslendingurinn sem skorar þrennu (eða fleiri mörk) í A-landsleik karla frá upphafi en hann er aðeins annar til þess að vinna slíkt afrek í mótsleik. Fyrstu þrennuna í mótsleik skoraði Jóhann Berg Guðmundsson á eftirminnilegan hátt gegn Sviss í undankeppni HM árið 2013, í leik sem endaði 4:4.

Hinar níu þrennurnar komu allar í vináttulandsleikjum og eru sem hér segir:

4 - Ríkharður Jónsson, Ísland - Svíþjóð 4:3 árið 1951.
4 - Arnór Guðjohnsen, Ísland -  Tyrkland 5:1 árið 1991.
3 - Teitur Þórðarson, Ísland - Færeyjar 6:0 árið 1975.
3 - Ragnar Margeirsson, Ísland - Færeyjar 9:0 árið 1985.
3 - Þorvaldur Örlygsson, Ísland - Eistland 4:0 árið 1994
3 - Bjarki Gunnlaugsson, Eistland - Ísland 0:3 árið 1996
3 - Helgi Sigurðsson, Ísland - Malta 5:0 árið 2000
3 - Tryggvi Guðmundsson, Indland - Ísland 0:3 árið 2001
3 - Albert Guðmundsson, Indónesía - Ísland 0:6 árið 2018

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert