Náðum því miður ekki að fylgja því eftir

Davíð Snorri Jónasson.
Davíð Snorri Jónasson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Úrslitalega séð er þetta mjög svekkjandi. Frammistöðulega séð byrjum við þennan leik vel, frábært mark sem við skorum og frábært annað mark sem við skorum sem var því miður dæmt af,“ sagði Davíð Snorri Jónasson, þjálfari íslenska U21-árs landsliðsins í knattspyrnu, eftir 1:2-tap fyrir Írlandi í vináttuleik í Cork í gær.

„Eftir það fáum við á okkur mark og svo fá þeir á sig rautt spjald og þá breytist leikurinn algjörlega. Við erum með góða stjórn á leiknum í fyrri hálfleik en í seinni hálfleik gerist það sem gerist oft í svona leikjum. Þá vex liðið sem er einum færri og við einhvern veginn náðum ekki að fylgja því eftir, því miður,“ hélt Davíð Snorri áfram í samtali við KSÍ TV.

Þrátt fyrir að vera einum fleiri í síðari hálfleik gekk íslenska liðinu erfiðlega að ná stjórn á leiknum í honum.

„Við reyndum að halda okkur við það hvernig við ætluðum að spila og að þau atriði sem við vorum að leggja upp með myndu halda áfram þó við værum einum fleiri, að missa ekki sjónar á því sem við vorum að leggja upp með í leiknum.

Að sama skapi að átta sig á því að við getum lent einum fleiri eða færri í leik í riðlinum líka, þannig að við þurfum bara að skoða þetta og finna hvar við getum gert betur,“ sagði hann.

Margir efnilegir leikmenn í hópnum

Davíð Snorri kvaðst á heildina litið nokkuð ánægður með það sem hann hefur séð í vináttuleikjum nýs U21-árs liðs gegn Skotlandi, sem vannst, og Írlandi.

„Já, það eru margir góðir kaflar sem við höfum sýnt og hópurinn hefur verið að vaxa. Það eru þrír leikir í mót og við þurfum að nýta tímann mjög vel og halda áfram að vinna í leik okkar á öllum sviðum. Það er alveg á hreinu.

Við erum alveg búnir að vaxa sem hópur. Í dag [í gær] vorum við ekki með fulla stjórn á leiknum, hann verður dálítið mikið tilfinningalegur og við þurfum að læra að verða betri í að stjórna leiknum tilfinningalega, að hafa einbeitingu á því sem er í gangi.

Að missa ekki frá okkur leikinn, það er óþarfi. Það er eitthvað sem við lærum af og hjálpumst að við að gera. Það eru margir efnilegir leikmenn í þessum hóp og eiga framtíðina fyrir sér þannig að við þurfum að halda áfram að ýta á okkur og pressa hvern annan í að verða betri.“

mbl.is