FH í félagaskiptabann ef ekki er gert upp við Morten

Morten Beck Guldsmed lék með FH á árunum 2019 til …
Morten Beck Guldsmed lék með FH á árunum 2019 til 2021. Eggert Jóhannesson

Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ hefur sektað knattspyrnudeild FH um 150 þúsund krónur og úrskurðað að karlalið félagsins verði í félagaskiptabanni í eitt félagaskiptatímabil ef það ljúki ekki uppgjöri launa við danska knattspyrnumanninn Morten Beck Guldsmed.

Daninn hefur krafið FH um 14 milljónir króna vegna ógreiddra launa en lögmaður hans, Vilhjálmur Vilhjálmsson, sagði við Vísi fyrr í þessum mánuði að krafa leikmannsins næmi alls rúmlega 24,3 milljónum króna, með dráttarvöxtum og lögmannskostnaði.

KSÍ greinir þannig frá málinu:

Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ hefur kveðið upp úrskurð í kærumáli nr. 2/2023 - leikmaðurinn Morten Beck Guldsmed gegn knattspyrnudeild FH. Hefur nefndin ákveðið að sekta knattspyrnudeild FH um kr. 150.000,- vegna vanefnda á greiðsluskyldu sinni skv. úrskurði samninga- og félagaskiptanefndar KSÍ frá 10. ágúst 2022 í meira en 30 daga án þess að hafa samið um greiðslufrest. Þá kveður úrskurður á um að Knattspyrnulið FH í meistaraflokki karla skuli sæta félagaskiptabanni í eitt félagaskiptatímabil ef ekki er gengið frá uppgjöri í samræmi við niðurstöðu samninga- og félagaskiptanefndar frá 10. ágúst 2022 innan 30 daga frá því að úrskurður þessi er kveðinn upp.

Úr niðurstöðu í máli nr. 2/2023:

„Aga- og úrskurðarnefnd tekur ekki afstöðu til fjárhæðar þeirra krafna sem gerðar hafa verið af hálfu kæranda á hendur kærða. Fellur það ekki í hlut aga- og úrskurðarnefndar að leysa úr slíkum ágreiningi. Hefur kærandi að auki ekki gert kröfu um að nefndin leggi sérstakt mat á þá fjárhæð. Nefndin telur það hins vegar ljóst að kærða hafi ekki tekist að færa sönnur á að gerðir hafi verið upp skattar og önnur launatengd gjöld af greiðslum til kæranda eins og kveðið er á í úrskurði frá 10. ágúst 2022. Leggur nefndin ríka áherslu á að kærandi uppfylli þær fjárhagslegu skuldbindingar sem hann tekur á sig skv. efni leikmannasamninga og ekki síður skv. niðurstöðu úrskurðarnefnda KSÍ. Niðurstaða samninga- og félagaskiptanefndar um ágreiningsefni er endanleg og bindandi fyrir deiluaðila, sbr. 28. grein reglugerðar KSÍ um félagaskipti, samninga- og stöðu leikmanna.

Það er mat aga- og úrskurðarnefndar að kærandi hefur vanefnt greiðsluskyldu sína skv. úrskurði samninga- og félagaskiptanefndar KSÍ frá 10. ágúst 2022 í meira en 30 daga án þess að hafa samið um greiðslufrest sbr. grein 14.17.3. í reglugerð KSÍ um félagaskipti, samninga og stöðu leikmanna og félaga. Greiðsluskylda kæranda hefur verið viðvarandi a.m.k. frá 10. ágúst 2022. Vegna þess hefur nefndin ákveðið að fallast að hluta á kröfur kæranda og sekta kærða um kr. 150.000,- samkvæmt grein 14.17.5 c). Jafnframt þykir nefndinni rétt að tiltaka að kærða verði gert að sæta félagaskiptabanni í eitt félagaskiptatímabil, skv. grein 14.17.5 d) takist kærða ekki að sýna fram á að gengið hafi verið frá uppgjöri í samræmi við niðurstöðu samninga- og félagaskiptanefndar frá 10. ágúst 2022 innan 30 daga frá því að úrskurður þessi er kveðinn upp. Er það í samræmi við grein 14.17.7. sömu reglugerðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert