Trúin á Arnari var farin

Vanda Sigurgeirsdóttir sagði trú stjórnar KSÍ á Arnari Þór Viðarssyni …
Vanda Sigurgeirsdóttir sagði trú stjórnar KSÍ á Arnari Þór Viðarssyni væri farin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Í gær var stjórnarfundur, þar sem við ræddum landsliðsmálin, og þá kemur í ljós að trú stjórnarinnar á að Arnar sé rétti maðurinn í þetta mikilvæga verkefni sé í raun farin,“ sagði Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, í samtali við mbl.is í dag.

Vanda og stjórn Knattspyrnusambands Íslands ákváðu í dag að reka Arnar Þór Viðarsson úr starfi sem landsliðsþjálfara karla í fótbolta.

„Við tókum annan fund í dag til að ræða þetta enn frekar. Þegar stjórnin hefur ekki trú á svona verkefni, þá er erfitt að halda áfram,“ bætti Vanda við.

Hún segir markmiðið vera að komast á EM í Þýskalandi á næsta ári, en að mati stjórnarinnar eru meiri líkur á að afreka það með annan landsliðsþjálfara á hliðarlínunni.

„Þetta snýst um trú. Það er mjög mikilvægt fyrir íslenskan fótbolta að komast aftur á EM. Það er mikilvægt að við sem stjórn gerum hvað við getum til að tryggja það. Það er skoðun stjórnar KSÍ að til að við getum gert allt sem við getum, þurfum við að skipta um þjálfara.

Við verðum að fylgja okkar eigin sannfæringu. Þetta var erfið ákvörðun, en partur af því að vera í stjórn er að taka erfiðar ákvarðanir. Þegar markmiðin eru stór, eru ákvarðanirnar það líka. Stjórn stendur öll á bakvið þessa ákvörðun. Það voru umræður og skiptar skoðanir, að sjálfsögðu, en þetta er ákvörðun stjórnar,“ sagði Vanda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert