Lánuð frá Kristianstad til Selfoss

Emelía Óskarsdóttir í leik með U16 ára landsliðinu á síðasta …
Emelía Óskarsdóttir í leik með U16 ára landsliðinu á síðasta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Emelía Óskarsdóttir, ein efnilegasta knattspyrnukona landsins, er komin til liðs við Selfyssinga í láni frá sænska úrvalsdeildarfélaginu Kristianstad.

Emelía er nýorðin 17 ára en hún lék samt 15 leiki með Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni á síðasta ári og skoraði eitt mark. 

Árið 2020 lék hún 14 ára gömul með Gróttu í 1. deild og skoraði þar eitt mark í 12 leikjum.

Hún hefur verið mjög atkvæðamikil með yngri landsliðum Íslands en með þeim hefur hún leikið 21 leik og skorað 10 mörk.

Faðir Emelíu er Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari karlaliðs Breiðabliks, og bróðir hennar er Orri Steinn Óskarsson, aðal markaskorari U19 ára landsliðsins og leikmaður FC Köbenhavn í Danmörku.

Á heimasíðu Selfyssinga kemur fram að Emelía verði í láni hjá þeim fram á haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert