Nýjar upplýsingar í máli Gylfa

Gylfi Þór Sigurðsson í leik með íslenska landsliðinu.
Gylfi Þór Sigurðsson í leik með íslenska landsliðinu. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Mál Gylfa Þórs Sigurðssonar, sem var handtekinn vegna gruns um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi, var látið niður falla síðastliðinn föstudag. The Athletic rekur málið í ítarlegri grein á vef sínum, þar sem nýjar upplýsingar koma fram. Miðilinn greinir m.a. frá að meintur þolandi Gylfa hafi verið stúlka undir 16 ára.

Gylfi var handtekinn í júlí árið 2021 og var laus gegn tryggingu, allt þar til málið var látið niður falla síðastliðinn föstudag. Alls liðu 637 dagar frá því hann var handtekinn og þar til málið var loks látið niður falla. Gylfa var að minnsta kosti sleppt gegn tryggingu sjö sinnum, á meðan málinu var frestað.

Límt fyrir þakgluggann

Gylfi var settur í bann hjá Everton, þar sem hann lék þegar handtakan átti sér stað, en þó á fullum launum. Þá var hann fluttur í nýtt húsnæði á meðan hann beið eftir næstu vendingum í málinu. The Athletic segir að límt hafi verið fyrir þakgluggana, svo drónar gætu ekki myndað inn til hans.

Gylfi Þór Sigurðsson lék með Everton þegar hann var handtekinn.
Gylfi Þór Sigurðsson lék með Everton þegar hann var handtekinn. AFP

Hann hefur aldrei verið nafngreindur í enskum fjölmiðlum, þar sem málið var látið niður falla og hann var aldrei ákærður. Þá má ekki fjalla um atriði sem gætu gert fólki kleift að átta sig á því um hvern er að ræða. Þjóðerni Gylfa var t.a.m. aldrei gert ljóst í fjölmiðlum á Englandi.

Eina ástæða þess að knattspyrnufélagið Everton kom fram, er vegna þess að félagið sjálft gaf frá sér yfirlýsingu. The Athletic greinir frá að það hafi breytt litlu, því nánast allir hafi vitað um hvern málið snérist, sérstaklega vegna samfélagsmiðla.

Var yngri en 16 ára 

Meintur þolandi Gylfa hefur aldrei verið nafngreindur, né fjallað um hana. Eina sem vitað er, er að hún var yngri en 16 ára þegar meint brot áttu að hafa verið framin. Rétt eins og Gylfi, hefur meintur þolandi rétt á að koma fram opinberlega, sem hún hefur ekki kosið að gera til þessa.

Gylfi gæti snúið aftur í landsliðið, ef hann heldur knattspyrnuferlinum …
Gylfi gæti snúið aftur í landsliðið, ef hann heldur knattspyrnuferlinum áfram. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Gylfi var handtekinn þegar undirbúningstímabilið fyrir tímabilið 2021/22 var í fullum gangi hjá Everton. Var liðið að gera sig klárt til að ferðast til Bandaríkjanna í æfingaferð. Athletic greinir frá að handtakan hafi komið öllum innan félagsins í opna skjöldu, þar á meðal liðsfélögum hans. Þurfti að taka erfiðar ákvarðanir og sú fyrsta var að banna Gylfa að æfa og leika með liðinu.

Sú ákvörðun var tekin vegna alvarleika meintra brota. Forráðamenn félagsins voru sammála um að það væri óhugsandi fyrir Gylfa að spila og vera áfram innan félagsins, með eins alvarlegt mál hangandi yfir sér.

Í ræktinni og spilaði golf 

Félagið hafði einnig hagsmuni Gylfa að leiðarljósi og var ákveðið að það yrði of mikið fyrir hann sjálfan að vera í sviðsljósinu, eftir að hafa verið handtekinn og grunaður um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi.

Skömmu eftir handtökuna tók Gylfi ákvörðun um að flytja frá Manchester, þar sem hann bjó á meðan hann lék með Everton, og til London. Þar vildi hann láta lítið fyrir sér fara og safnaði skeggi. Eftir því sem leið á málið, var hann farinn að ferðast um London með almenningssamgöngum og var ávallt duglegur í ræktinni. Þá spilaði hann einnig golf. Hann sást einnig á leikjum íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta á EM síðasta sumar.

Gylfi Þór Sigurðsson ræðir við frænku sína Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur …
Gylfi Þór Sigurðsson ræðir við frænku sína Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur eftir leik Íslands og Frakklands á EM síðasta sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan í Manchester mun ekki tjá sig frekar um málið og munum því líklega aldrei vita hvers vegna það tók tæplega tvö ár að rannsaka mál, sem síðan var látið niður falla. Eða nákvæmlega hvers eðlis meint brot áttu að hafa verið. 

Ferillinn búinn? 

Það er ekkert sem bannar Gylfa að halda ferli sínum áfram, hafi hann áhuga á því. The Athletic greinir frá að aðstandendur Gylfa séu óvissir hvort hann vilji taka upp þráðinn á ný, eftir eins langa fjarveru og þessa.

Í greininni kemur fram að nánir fjölskyldumeðlimir Gylfa séu að íhuga að senda frá sér yfirlýsingu, til að skýra hans hlið. Þegar þessi frétt Athletic er skrifuð, tæplega viku eftir að málið var látið niður falla, hefur engin slík yfirlýsing litið dagsins ljós og Gylfi hefur ekki veitt viðtöl vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert