Óvænt hetja í stórleiknum á Hlíðarenda

Valskonur fagna Önnu Rakel Pétursdóttur eftir að hún kom þeim …
Valskonur fagna Önnu Rakel Pétursdóttur eftir að hún kom þeim yfir á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Eggert

Anna Rakel Pétursdóttir reyndist hetja Vals þegar liðið tók á móti Breiðabliki í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í 1. umferð deildarinnar á Hlíðarenda í kvöld.

Leiknum lauk með sigri Vals, 1:0, en Anna Rakel skoraði sigurmark leiksins á 73. mínútu.

Leikurinn fór rólega af stað og liðin skiptust á að vera með boltann.

Ásdís Karen Halldórsdóttir átti fyrstu marktilraun leiksins fyrir Val en skot hennar, úr miðjum vítateig Breiðabliks fór beint í hendurnar á Telmu Ívarsdóttur í marki Blika.

Ásdís Karen var aftur á ferðinni á 31. mínútu þegar að Bryndís Arna Níelsdóttir tíaði hana snyrtilega upp í vítateig Blika en skot hennar söng í þverslánni.

Þórdís Elva Ágústsdóttir átti annað sláarskot fyrir Val á 41. mínútu þegar að hún reyndi skot af 40 metra færi, yfir Telmu í markinu sem stóð ansi framarlega, en boltinn datt ofan á þverslánna.

Hvorugu liðinu tókst að skapa sér afgerandi marktækifæri í fyrri hálfleik og staðan því markalaus í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn fór rólega af stað, líkt og sá fyrri.

Agla María Albertsdóttir átti fínasta skot úr aukaspyrnu af 25 metra færi sem Fanney Inga Birkisdóttir í marki Vals þurfti að hafa sig alla við að verja strax á 51. mínútu.

Þórdís Elva Ágústsdóttir fékk svo frábært færi til þess að koma Val yfir á 60. mínútu þegar boltinn datt fyrir hana í vítateig Blika, eftir að Telma hafði kýlt boltann frá, en skot hennar fór langt framhjá markinu.

Anna Rakel Pétursdóttir braut svo ísinn fyrir Valskonur á 73. mínútu þegar að Lára Kristín Pedersen átti frábæra sendingu frá hægri.

Varnarmenn Blika misreiknuðu boltann og misstu hann yfir sig. Boltinn barst til Önnu Rakelar sem lagði hann fyrir sig og átti svo þrumuskot sem söng í fjærhorninu og staðan orðin 1:0.

Fjórum mínútum síðar fékk Agla María Albertsdóttir frábært færi til þess að jafna metin fyrir Breiðablik en skalli hennar út markteig Vals fór beint á Fanneyju í markinu.

Blikar settu mikla pressu á Val á lokamínútum leiksins og Agla María átti þrumuskot af 30 metra færi á lokasekúndunum sem hafnaði í þverslánni. 

Íslands- og bikarmeistararnir byrja því tímabilið á sigri og tylla sér á toppinn í deildinni en Blikar eru án stiga í 9. sætinu.

Valskonan Hanna Kallmaier og Blikinn Bergþóra Sól Ásmundsdóttir í baráttunni …
Valskonan Hanna Kallmaier og Blikinn Bergþóra Sól Ásmundsdóttir í baráttunni á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Eggert
Valur 1:0 Breiðablik opna loka
90. mín. Agla María Albertsdóttir (Breiðablik) á skot í þverslá VÁ! Agla María með frábært skot af 30 metra færi en boltinn í þverslánna!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert