Þá ætti maður bara að vera heima

Ásmundur Arnarsson á hliðarlínunni í kvöld.
Ásmundur Arnarsson á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Vonbrigði og svekkelsi eru fyrstu orðin sem koma upp í hugann,“ sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 1:0-tap liðsins gegn Val í Bestu deild kvenna í knattspyrnu á Hlíðarenda í kvöld.

„Mér fannst þetta jafn leikur og stelpurnar skildi allt sitt eftir á vellinum en það dugði ekki til. Þetta var baráttuleikur og Valsararnir voru fastir fyrir. Við fengum einhverja möguleika en nýttum þá ekki og þá vill þetta oft enda svona. Það kemur þarna eitt augnablik, þar sem við missum boltann yfir okkur, og þær kláruðu færið sitt vel.

Við erum með lykilmenn sem eru að koma til baka eftir meiðsli og ég hefði alveg viljað fá nokkrar vikur í viðbót til þess að koma þeim af stað en það er ekki í boði. Við þurfum að reyna púsla þessu saman eins vel og við getum, án þess þó að það komu bakslag í þeirra endurkomu,“ sagði Ásmundur.

Bergþóra Sól Ásmundsdóttir í baráttunni á Hlíðarenda.
Bergþóra Sól Ásmundsdóttir í baráttunni á Hlíðarenda. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stefna alltaf á fyrsta sætið

Blikum er spáð Íslandsmeistaratitilinum í spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna liða í deildinni.

„Það er ekki aukapressa fyrir Breiðablik að okkur sé spáð titilinum. Breiðablik er félag sem setur stefnuna alltaf á fyrsta sætið og það er ekkert öðruvísi núna. Við höfum verið að spila á frekar ungu liði í vetur og við verðum með þétt og sterkt lið í sumar, sama hver spilar. Ég er ánægður með hópinn og blönduna í honum.“

Ásmundur gat ekki stillt upp sínu sterkasta liði í kvöld eins og áður hefur komið fram.

„Það er alveg pirrandi að geta ekki stillt upp sínu sterkasta liði en þú færð ekki allt sem þú vilt í þessum bransa. Á sama tíma er þetta alltaf jafn gaman og umhverfið í Kópavoginum er frábært. Ef maður hefði ekki gaman að þessu þá ætti maður bara að vera heima,“ bætti Ásmundur við í samtali við mbl.is.

Blikar verjast aukaspyrnu Valsliðsins.
Blikar verjast aukaspyrnu Valsliðsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert