Okkur vantaði aðeins meiri gæði

Frederik Schram segir að Valsmenn muni koma sterkari til baka …
Frederik Schram segir að Valsmenn muni koma sterkari til baka eftir tapið gegn Blikum í kvöld. Ljósmynd/Kristín Þórhallsdóttir

Frederik Schram, markvörður Valsmanna, kvaðst ekki hafa miklar áhyggjur af framhaldinu hjá Hlíðarendaliðinu þrátt fyrir ósigur gegn Breiðabliki, 1:0, í Bestu deild karla í fótbolta á Kópavogsvellinum í kvöld.

Valsmenn misstu þar Blika tveimur stigum fram úr sér og duttu niður í þriðja sæti deildarinnar þar sem þeir eru nú átta stigum á eftir toppliði Víkings.

„Því miður fengum við ekki mörg færi til að skora í kvöld, en það var nákvæmlega svona leikur sem við bjuggum okkur undir. Í svona leik er fullt af litlum atriðum sem skipta miklu máli en það vantaði hjá okkur aðeins meiri gæði á síðasta þriðjungi vallarins í kvöld. Við gerðum margt ágætlega en ekki nóg til að fá þrjú stig eins og við ætluðum,“ sagði Frederik við mbl.is eftir leikinn.

Eftir góða byrjun Vals á tímabilinu hefur liðið hikstað í síðustu leikjum. Fyrst kom tap gegn Grindavík í bikarnum og síðan tveir markalausir leikir í röð, 0:0 gegn Keflavík og svo tapið í kvöld. Frederik sagðist ekki hafa miklar áhyggjur af því.

„Þetta hefur ekki verið svo slæmt. Ef við horfum á þessa leiki þá var þetta þannig í dag að við mættum góðu liði, gegn Keflavík vorum við óheppnir að skora ekki úr þremur dauðafærum og vorum mjög þéttir til baka, en gegn Grindavík var þetta bara dæmigerður bikarleikur.

Við höldum áfram að gera okkar hluti eins og við teljum okkur gera þá best, liðið er á góðri leið og þetta er bara smá hiksti,“ sagði Frederik.

Patrick Pedersen og Hólmar Örn Eyjólfsson komu inn á sem varamenn hjá Val í kvöld og spiluðu sína fyrstu leiki og Frederik kvaðst mjög ánægður með að fá þá aftur í liðið.

„Það er geggjað að fá þá inn og þetta eykur samkeppnina í hópnum. Þannig þarf þetta að vera, margir leikmenn sem berjast um að komast í liðið. Við erum með frábæran hóp og við munum koma sterkari til baka,“ sagði Frederik Schram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert