„Þurfum að kíkja í spegilinn“

Hallgrímur á hliðarlínunni í kvöld.
Hallgrímur á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

KA hefur tapað þremur deildarleikjum í röð í Bestu deild karla í fótbolta. Topplið Víkinga var í heimsókn á Akureyri í dag og eftir að KA-menn höfðu gefið mark strax á 3. mínútu litu Víkingar aldrei til baka og lauk leik með 4:0 sigri þeirra.

KA tapaði síðasta heimaleik, gegn Val, einnig 4:0 en þá skoraði Valur strax á 1. mínútu. Þótti eðlilegt að spyrja Hallgrím Jónasson þjálfara KA, hvort um endurtekið efni hafi verið um að ræða.

„Ég er nú ekki sammála því. Mér fannst við byrja leikinn mjög vel og við vorum flottir og komum okkur í fullt af stöðum. Svo gerum við stór mistök og gefum þeim mark. Það breytti ýmsu. Við þurfum bara að gera betur. Það er ekki flókið. Við þurfum bara að einbeita okkur að sjálfum okkur núna. Þurfum að kíkja í spegilinn og gera betur. Það eru of margir hlutir sem eru ekki nógu góðir hjá okkur.“

Hallgrímur ræðir við sína menn.
Hallgrímur ræðir við sína menn. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Þið þurftuð að gera þrjár breytingar á vörninni, frá síðasta leik. Það er kannski ekki óskastaða þegar toppliðið kemur í heimsókn.

„Þetta hefur sín áhrif. En annan leikinn í röð erum við að gefa mark í stöðunni 0:0. Það er erfitt að fá á sig svona mörk. Þetta eru flottir leikmenn sem komu inn en það vantar samæfingu og menn vita ekki nákvæmlega hver gerir hlutina og hvernig. Það kemur á menn að fá svona ódýrt mark í andlitið í byrjun leiks.

Það breytir því ekki að leikurinn fór 4:0. Við erum ekki að klára okkar stöður og okkar færi nógu vel. Við náum fáum skotum á markið og Víkingar gera vel úr sínum sénsum og vinna bara sanngjarnan sigur.“

Þú ræddir það eftir síðasta leik gegn Blikum að þið væruð á eftir þessum þremur toppliðum. Þið hafið nú mætt þeim í þremur síðustu deildarleikjum, tapað þeim öllum og ekki skorað mark. Þú metur stöðuna væntanlega eins.

„Já það er bara þannig. Við erum á eftir toppliðunum og eins og staðan er núna þá erum við ekki að keppa við þau en munurinn á liðunum á ekki að vera svona mikill. Við erum að einbeita okkur að þessum miðjupakka sem við erum í núna og í næstu leikjum mætum við liðum sem eru nær okkur í töflunni. Við verðum bara að gjöra svo vel að gera betur þar. Það er enginn að fara að gera þetta fyrir okkur.

Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Það hjálpar ekkert að vera að reyna að finna afsakanir í hinu eða þessu. Við verðum bara að gera betur. Við erum með stóran og sterkan hóp og nú sjáum við úr hverju menn eru gerðir. Eru menn tilbúnir til að líta í eigin barm. Eru menn tilbúnir til að vinna með manninum við hliðina á sér eða ætlum við að fara að benda á næsta mann. Þeir sem eru tilbúnir að gera þetta á réttan hátt munu spila.“

Í dag er fimmtudagur. Næsti leikur er strax á mánudag og svo taka við leikir á föstudag og mánudag. Þetta er ekkert grín.

„Það er endalaust af leikjum og lítið um æfingar. Það er gaman þegar gengur vel en erfiðara þegar gengur ekki vel. En það er svo sem ágætt að það sé stutt í næsta leik. Við erum ekki allt í einu orðnir lélegir í fótbolta. Nú þarf að ýta á réttu punktana og við þurfum að standa saman. Ef við vinnum næsta leik þá lítur þetta strax betur út“ sagði Hallgrímur að lokum

mbl.is