Risasigrar Stjörnunnar og Breiðabliks – Úlfa skoraði fjögur

Írena Héðinsdóttir Gonzalez úr Breiðabliki með boltann í dag.
Írena Héðinsdóttir Gonzalez úr Breiðabliki með boltann í dag. mbl.is/Óttar

Úrvalsdeildarliðin Stjarnan og Breiðablik unnu í dag risasigra á Gróttu og Fram úr 1. deildinni í 16-liða úrslitum Mjólkurbikars kvenna í fótbolta.

Ariela Lewis kom Gróttu yfir gegn Stjörnunni á Seltjarnarnesi, en Stjörnukonur svöruðu með níu mörkum. Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir gerði þrjú fyrstu og Aníta Ýr Þorvaldsdóttir það fjórða, áður en Úlfa skoraði sitt fjórða mark og fimmta mark Stjörnunnar.

Gyða Kristín Gunnarsdóttir bætti við sjötta markinu, Betsy Hassett því sjöunda, Andra Mist Pálsdóttir því áttunda og Gyða gerði sitt annað mark og níunda mark Stjörnunnar undir lok leiks. Lokatölur 9:1.

Breiðablik vann heimasigur á Fram, 7:0. Clara Sigurðardóttir og Taylor Ziemer gerðu tvö mörk hvor fyrir Blika og þær Andrea Rut Bjarnadóttir, Ásta Eir Árnadóttir og Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir komust einnig á blað.

mbl.is