Framhald af því sama hjá okkur

Úr leiknum í kvöld, þar sem glittir í Alex Frey …
Úr leiknum í kvöld, þar sem glittir í Alex Frey Hilmarsson með fyrirliðabandið fyrir miðri mynd. mbl.is/Óttar Geirsson

„Þetta var kannski svolítið framhald af því sama hjá okkur,“ sagði Alex Freyr Hilmarsson, leikmaður ÍBV, í samtali við mbl.is eftir 2:1-tap fyrir Fylki í Bestu deildinni í knattspyrnu í kvöld.

ÍBV náði forystunni snemma leiks með laglegu marki Alex Freys, sem var fyrirliði Eyjamanna í fjarveru Eiðs Arons Sigurbjörnssonar, sem meiddist í upphitun. Fylkir sneri hins vegar taflinu við og tryggði sér sigur.

„Við vorum ekki alveg nógu beittir fram á við. Við fáum á okkur mark úr föstu leikatriði. Mjög klaufalegt seinna markið sem við fáum á okkur þar sem við náum ekki að stíga upp í hann [Óskar Borgþórsson] en engu að síður er smá heppnisstimpill yfir því.

Við vorum alveg með þá í pressu en fyrir utan það þá virtust þeir geta lúðrað boltanum fram blindandi og fundið framherjann sinn, sem er svona það versta sem getur gerst.

Það er svona það sem svíður mest svona beint eftir leik, án þess að vera búnir að horfa á hann aftur. Það var of auðvelt fyrir þá,“ hélt hann áfram og átti þar við Pétur Bjarnason, sem reyndist Eyjamönnum erfiður ljár í þúfu.

Meiri kraftur og meiri hraði

ÍBV hefur nú tapað fimm leikjum í röð í deildinni og er í fallsæti með 6 stig. Til hvaða ráðs þurfa Eyjamenn að taka til þess að fara að hala inn stigum?

„Ég held að það sem við gerum, hvað svo sem við gerum, þurfum við að gera af miklu meiri krafti og miklu meiri hraða. Það er mín skoðun,“ sagði Alex Freyr.

Hann kvaðst að lokum hafa trú á því að ÍBV finni fjölina aftur og lagi það sem aflaga hefur farið í framhaldinu.

„Já, já, ég er alveg bjartsýnn á það. Við höfum alveg sýnt það áður að við erum með karakter og leikmenn sem geta auðveldlega gert það en við verðum bara allir að róa í sömu átt.“

mbl.is