Verjum markið okkar ótrúlega vel

Sverrir Páll Hjaltested og Arnór Gauti Jónsson í baráttunni í …
Sverrir Páll Hjaltested og Arnór Gauti Jónsson í baráttunni í leiknum í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

„Þetta var frábær sigur, karakterssigur. Þetta var feikilega góð frammistaða, svona liðsheildar frammistaða,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis, í samtali við mbl.is eftir 2:1-sigur liðsins á ÍBV í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld.

„Við troðum inn tveimur fínum mörkum og verjum markið okkar ótrúlega vel þrátt fyrir að hafa fengið á okkur mark snemma í leiknum.

Það hefur gerst áður en við höfum oft komið til baka, sem sýnir svolítið kraftinn og samheldnina í liðinu okkar. Ég er líka ánægður með að það séu framfarir í því sem við erum að gera.

Fótboltinn er bara þannig að þú þarft að vera duglegur að verja markið þitt, djöflast og hjálpa félaganum og reyna að nýta þau færi sem þú færð. Ég er hrikalega ánægður með kjarnann og „kemistríið“ í liðinu. Framfarir eru líka eitthvað sem maður horfir á,“ bætti Rúnar Páll við.

Er þetta ekki bara sportið?

Eins og hann nefndi hefur Fylkir reglulega fengið á sig mörk snemma leiks það sem af er tímabili. Af hverju stafar það?

„Ef ég hefði nú lausn á því þá væri ég einhvers staðar annars staðar. En ég veit það ekki, er þetta ekki bara sportið? Það verður einhver að skora.

Við höfum verið að fá á okkur mörk snemma leiks en það þýðir ekkert að ræða það, þá er þetta orðin einhver hringrás,“ sagði Rúnar Páll.

Búnir að spila vel undanfarið

Hann kvaðst loks vera ánægður með að koma sér lengra frá ÍBV með sigri í sex stiga leik. Fylkir er nú með 10 stig og ÍBV enn með 6 stig í fallsæti.

„Mér finnst við vera búnir að spila vel núna í síðustu 4-5 leikjum. Eftir að við töpuðum hérna á móti Val höfum við spilað ágætlega. Það er rosa kraftur í okkur og góð eining í liðinu, góður andi.

Sex stiga leikur, við skiljum þá svolítið frá okkur núna og vonandi fara úrslit þannig í kvöld að við verðum einir þarna með okkar tíu stig. Síðan eigum við KR á fimmtudaginn og það er enn einn sex stiga leikurinn, þannig að við sjáum hvernig það endar allt saman í Frostaskjólinu.“

mbl.is