Ekki mörg lið sem hefðu hangið í okkur í þessum ham

Arnar Gunnlaugsson á hliðarlínunni í leiknum í kvöld.
Arnar Gunnlaugsson á hliðarlínunni í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Hákon Pálsson

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, var sáttur með spilamennsku sinna manna þrátt fyrir fyrsta tap liðsins í sumar. Liðið tapaði gegn Valsmönnum, 3:2, í Víkinni í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld.

„Ég er bara mjög ánægður með að hafa tekið þátt í þessum leik og okkar strákar spiluðu gríðarlega vel. Valur sýndi gæði sín á köflum en heilt yfir vorum við betra liðið í leiknum. Valur refsaði okkur og fyrst við þurftum að tapa vil ég endilega að það gerist í svona leik þar sem frammistaðan var frábær.“

Leikurinn var í járnum en eftir klukkutíma leik skoraði Tryggvi Hrafn Haraldsson, leikmaður Vals, tvö mörk á jafn mörgum mínútum. Víkingur virtist þó ekki láta það á sig fá og minnkaði muninn skömmu síðar.

„Það var aðallega þriðja markið sem pirraði mig verulega, það var óþarfi. Við vorum komnir með tökin, búnir að ná vopnum okkar aftur og byrjaðir að herja á þá. Þeir voru orðnir svolítið skelkaðir og þá gefum við þeim vítamínssprautu til að klára leikinn, það var pirrandi. 

Fyrri hálfleikur var fullkominn af okkar hálfu. Þeir fengu færi en það var meira tilviljunarkennt þegar boltinn datt til þeirra eftir góða pressu hjá okkur. Þeir eru bara með gæðaleikmenn sem refsa illilega ef að einbeitingarleysi er til staðar, sem var ekki oft í leiknum en kom fyrir. Heilt yfir var þetta frábær fótboltaleikur, við tókum þátt í honum og vorum bara virkilega öflugir.“

Í öllum mörkum Vals í leiknum var boltinn settur aftur fyrir vörn Víkings í aðdragandanum.

„Ég er ósáttur. Þetta er liggur við það eina sem við æfum í varnarleik, það eru þessar sendingar út í teiginn. Við eigum að kunna þetta betur, ég á eftir að sjá þetta betur til að geta kennt einhverjum um en við fyrstu sýn var ég mjög ósáttur með þetta.“

Víkingur var eins og áður sagði að tapa sínum fyrstu stigum í sumar. Liðið hafði fyrir leik unnið alla sína leiki en Arnar telur að tapið muni ekki hafa of mikil áhrif á leikmannahópinn.

„Ég held að þetta breyti ekki nokkru máli. Það er stundum bara fínt að fá tap í svona leik. Mér er ekki sama hvernig við töpum en frammistaðan var það góð að menn þurfa ekkert að vorkenna sér of mikið eða vera svekktir. Fótboltaleikir eru bara stundum svona, maður fær ekki allt sem maður vill og bara hrós til Valsmanna. Það eru ekki mörg lið sem hefðu hangið í okkur í þessum ham sem við vorum í dag.“

Þrátt fyrir tapið er Víkingur enn með fimm stiga forystu á toppi deildarinnar. Arnar frétti af því í viðtalinu að Breiðablik hefði gert markalaust jafntefli við Keflavík í kvöld og gladdist yfir því.

„Við erum að fá svona fótbolta í svona veðri, ímyndaðu þér þá hvernig þetta verður þegar það verður sól og blíða. Þetta verður erfitt, núna fara menn að detta í leikbönn og meiðsli því það er búið að vera mikið leikjaálag. Ef þú hefðir boðið mér fimm stiga forskot á þessum tíma í janúar hefði ég tekið af þér hendina fyrir það. Svo erum við líka komnir áfram í bikar þannig við erum bara í toppmálum.“

mbl.is