Klúðruðu einu ótrúlegasta færi sem ég hef séð

Frans Elvarsson
Frans Elvarsson Ljósmynd/Kristinn Steinn

Frans Elvarsson, fyrirliði Keflvíkinga, stóð vaktina með prýði í vörn heimamanna sem hélt hreinu annan leikinn í röð og náði í sitt fyrsta stig á heimavelli í sumar eftir 0:0 jafntefli við Íslandsmeistara Breiðabliks í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld.

Aðstæður voru ekki góðar, erfiður grasvöllurinn ásamt rok og rigningu. Aðspurður um tilfinninguna eftir leik sagði Frans:

„Hún er ágæt, ég hefði verið til í að stela þessu undir lokin. Við vorum búnir að halda aftur af þeim (Blikum) lengi. Þeir klúðruðu einu ótrúlegasta færi sem ég hef séð (hjá Klæmint Olsen) en að sama skapi hefði verið sætt að stela þessu í lokin en já við tökum stigið á móti öflugu liði Breiðabliks,“ sagði hann við mbl.is.

Keflavík lék sinn fyrsta heimaleik á grasvellinum sínum. Þetta hafði Frans að segja um að spila loksins á heimavelli:

„Það er alveg frábært, þrátt fyrir að aðstæður séu ekki þær bestu, völlurinn ekki ennþá alveg klár þá er allt öðruvísi að vera með áhorfendur hér í stúkunni heldur en á gervigrasvellinum,“ sagði Frans.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert