Ætlaði ekki að láta barn stöðva mig í að halda áfram

Sandra María Jessen í leik gegn Keflavík fyrr í mánuðinum.
Sandra María Jessen í leik gegn Keflavík fyrr í mánuðinum. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Sandra María Jessen, fyrirliði Þórs/KA í knattspyrnu og leikmaður maímánaðar samkvæmt einkunnagjöf Morgunblaðsins, segir það hafa verið öðruvísi að snúa aftur eftir barnsburð samanborið við að meiðast alvarlega.

„Ég hef tvisvar sinnum lent í erfiðum meiðslum. Ég hef slitið bæði fremra krossband og aftara krossband og hef þurft að vera frá í lengri tíma.

Samt sem áður finnst mér það öðruvísi að koma til baka eftir barnsburð þar sem líkaminn er bara á allt öðrum stað.

Þú ert búin að ganga í gegnum þvílíkar breytingar, byrjar aftur á núllpunkti og þarft að vinna þig aftur upp í gamla formið,“ sagði Sandra María í samtali við mbl.is.

Með það mikið keppnisskap

Hún eignaðist dóttur sína í september árið 2021 og sneri aftur til keppni tímabilið á eftir.

„Ég fékk rosalega góða aðstoð og hjálp frá styrktarþjálfum og þjálfurum Þórs/KA yfir höfuð. Þau hjálpuðu mér að koma mér á þann stað sem ég er á í dag.

Ég er búin að vinna með fullt af góðu fólki sem hefur komið með margar góðar ábendingar. Síðan var ég bara staðráðin í því að ég ætlaði ekkert að láta barn stöðva mig í að halda áfram í fótbolta.

Ég er enn þá ung og á nóg af árum eftir. Ég er bara með það mikið keppnisskap að ég er komin á þann stað sem ég er á núna,“ bætti hin 28 ára gamla Sandra María við.

Nánar var rætt við sóknarmanninn öfluga í Morgunblaðinu á laugardag.

mbl.is