Vantaði mark með hægri til að fullkomna þrennuna

Liðin mættust í annað skiptið á fjórum dögum.
Liðin mættust í annað skiptið á fjórum dögum. mbl.is/Arnþór Birkisson

Bryndís Arna Níelsdóttir skoraði bæði mörk Vals í 2:1-sigri þeirra á Þrótti þegar Reykjavíkurliðin mættust í Laugardalnum í kvöld. Valskonur eru með þessum sigri komnar í efsta sæti í deildinni.

 „Við spiluðum boltanum vel á milli okkar, héldum honum og sköpuðum okkur færi og nýttum þau vel. Geggjað að ná inn tveimur mörkum svona snemma í leiknum, það fékk þær aðeins til að skjálfa.

Við féllum full mikið í síðasta leik, við vorum góðar í fyrri hálfleik en duttum aðeins niður í seinni. Við hleyptum þeim aðeins inn í seinni hálfleik í dag líka en við héldum þeim miklu betur. Þær fengu í raun ekki nein alvöru færi fyrir utan þetta mark sem var klaufalegt," sagði Bryndís við mbl.is.

Bryndís Arna skoraði tvö mörk þegar minna en stundarfjórðungur var búinn af leiknum.

 „Markmiðið er alltaf að skora mörk og að ná inn þessum mörkum, skallamark og með vinstri, ég þurfti bara að klára hann með hægri til að fullkomna þrennuna en það kemur næst,“ sagði Bryndís hress eftir sigurinn.

mbl.is