Ótrúleg endurkoma Blika í toppslagnum

Víkingurinn Birnir Snær ingason sækir að Blikum.
Víkingurinn Birnir Snær ingason sækir að Blikum. mbl.is/Arnþór Birkisson

Breiðablik og Víkingur R. mættust í toppslag í Bestu deild karla í fótbolta í dag. Leikið var á Kópavogsvelli og enduðu leikar með hádramatísku jafntefli, 2:2.

Eftir leikinn er Víkingur á toppi deildarinnar með 28 stig en Breiðablik er í 3. sæti með 23 stig.

Þjálfarar liðanna gerðu báðir þrjár breytingar á liðum sínum frá síðasta leik. Hjá Breiðablik komu Andri Rafn Yeoman, Arnór Sveinn Aðalsteinsson og Stefán Ingi Sigurðarson inn í byrjunarliðið og hjá Víkingi komu þeir Danijel Dejan Djuric, Matthías Vilhjálmsson og Davíð Örn Atlason inn í byrjunarliðið.

Óhætt er að segja að leikurinn í kvöld hafi verið frábær skemmtun og þeir 1.915 áhorfendur sem mættu á völlinn fengu svo sannarlega nóg fyrir peninginn.

Víkingur komst yfir á 14. mínútu leiksins þegar Nikolaj Hansen sendi boltann innfyrir vörn Blika þar sem Erlingur Agnarsson kom aðvífandi á hægri kantinum. Erlingur átti frábæra fyrirgjöf á Danijel Dejan Djuric sem kláraði færi sitt mjög vel og kom Víkingum í 1:0 forystu.

Það var síðan á fjórðu mínútu uppbótartíma fyrri hálfleiks sem Víkingur tvöfaldaði forystu sína. Þá vann Nikolaj boltann á miðjunni af Oliver Sigurjónssyni og gerði Daninn allt rétt. Hann renndi boltanum á Birni Snæ Ingason sem kláraði færi sitt mjög vel með góðu skoti í fjærhornið, algjörlega óverjandi fyrir Anton Ara Einarsson, markvörð Breiðabliks, og staðan orðin 2:0 fyrir gestina.

Umdeilt atvik átti sér stað þegar Ívar Orri Kristjánsson, dómari leiksins, flautaði til hálfleiks. Þá var Danijel Djuric kominn einn í gegnum vörn heimamanna en Ívar flautaði til loka hálfleiksins og voru Víkingar skiljanlega ekki sáttir með Ívar Orra.

Síðari hálfleikur einkenndist af mikilli baráttu en lítið var um færi.

Stefán Ingi Sigurðarson, framherji Breiðabliks, fékk þó frábært færi á 57. mínútu þegar hann skallaði fyrirgjöf Höskuldar Gunnlaugssonar í stöngina. Frákastið féll fyrir Gísla Eyjólfsson sem átti skot að marki en varnarmenn Víkings náðu að fleygja sér fyrir það og björguðu vel.

Það virtist allt stefna í þægilegan sigur Víkinga en heimamenn voru á öðru máli.

Á sjöttu mínútu uppbótartíma tók Höskuldur Gunnlaugsson hornspyrnu sem fór beint á kollinn á Gísla Eyjólfssyni. Gísli átti frábæran skalla sem endaði í markinu og eygðu Blikar von á magnaðri endurkomu.

Einni mínútu síðar átti Viktor Karl Einarsson fyrirgjöf á Höskuld Gunnlaugsson, Höskuldur skallaði boltann fyrir Færeyinginn Klæmint Olsen sem skoraði með bakfallsspyrnu og jafnaði leikinn. Nokkrum sekúndum síðar flautaði Ívar Orri leikinn af og ótrúleg endurkoma heimamanna staðreynd.

Eftir að lokaflautið gall þá sauð upp úr á hliðarlínunni þegar Logi Tómasson, leikmaður Víkings, hrinti Halldóri Árnasyni, aðstoðarþjálfara Breiðabliks og fékk Logi rautt spjald eftir leik.

Breiðablik 2:2 Víkingur R. opna loka
90. mín. Logi Tómasson (Víkingur R.) fær rautt spjald +8 Fyrir að hrinda aðstoðarþjálfara Breiðabliks í stimpingum eftir að leiknum lauk.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert