Brasilískt samba í Úlfarsárdal

Fred Saraiva fagnar marki sínu með stæl.
Fred Saraiva fagnar marki sínu með stæl. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Fram er komið upp úr fallsæti Bestu deildar karla í fótbolta eftir 3:1-heimasigur á Keflavík í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld. Með sigrinum fór Fram upp í ellefu stig og upp í sjöunda sæti. Keflavík er enn á botninum með sex.

Fyrri hálfleikurinn var með rólegasta framan af og áttu bæði lið, sem hafa verið í basli undanfarnar vikur, erfitt með að skapa sér færi. Markverðir liðanna höfðu lítið að gera og var ljóst að bæði lið voru hrædd við að tapa.

Úr varð gæðalítill leikur, en það breyttist á lokamínútu fyrri hálfleiks. Brasilíumaðurinn Fred fékk þá boltann á miðjum vallarhelmingi Keflavíkur, sótti að marki og skilaði boltanum upp í skeytin með stórglæsilegu skoti. Var staðan í leikhléi því 1:0, Fram í vil.

Seinni hálfleikurinn byrjaði mun betur en sá fyrri og Tiago var nálægt því að skora annað mark Fram strax í upphafi, en Mathias Rosenörn í marki Keflavíkur varði vel.

Hann kom hins vegar engum vörnum við á 57. mínútu er Aron Jóhannsson skoraði annað mark Fram. Hann var þá mættur á fjær eftir sendingu frá Fred og skoraði af öryggi. Var Fred þá kominn með eitt mark og eina stoðsendingu.

Keflavík komst aftur inn í leikinn á 69. mínútu þegar Tiago braut á Sindra Þór Guðmundssyni innan teigs og Guðgeir Einarsson dæmdi víti. Stefan Ljubicic fór á punktinn, skoraði af öryggi og minnkaði muninn í 2:1.

Það voru hins vegar Framarar sem skoruðu fjórða mark leiksins og það gerði Delphin Tshiembe með skalla af stuttu færi eftir hornspyrnu frá Magnúsi Þórðarsyni. 

Fred bætti við sínu öðru marki og fjórða marki Fram á lokamínútunni er hann kláraði aftur glæsilega, nú með vippu í teignum eftir sendingu frá Tiago og stórsigur Framara varð raunin. 

M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.

Fram 4:1 Keflavík opna loka
90. mín. Tiago Fernandes (Fram) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert