„Hef aldrei verið jafn svekktur eftir einn fótboltaleik“

Birnir Snær Ingason í baráttu við Andra Rafn Yeoman í …
Birnir Snær Ingason í baráttu við Andra Rafn Yeoman í leiknum í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Birnir Snær Ingason, leikmaður Víkings R., var að vonum niðurlútur þegar hann mætti í viðtal til mbl.is eftir að Víkingur hafði glutrað niður tveggja marka forystu á lokamínútunum gegn Breiðablik í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld.

„Mér fannst leikurinn spilast vel. Við fáum marga sénsa í fyrri hálfleik og náum að skora tvö góð mörk, síðan erum við bara með stjórn á þessu í seinni hálfleik þangað til við fáum þessi tvö mörk á okkur undir lok leiksins sem var bara hörmulegt.“

Liðsmenn Víkings virtust vera að sigla flottum sigri heim en missa öll tök á leiknum á síðustu þremur mínútum uppbótartímans sem reyndist vera nægur tími fyrir Breiðablik til að snúa leiknum við og ná jafnteflinu.

„Ég er ekki búinn að sjá mörkin en þetta voru bara tvær fyrirgjafir og þeir vinna baráttuna í teignum sem er náttúrlega bara skita hjá okkur. Þegar allt er undir eigum við að vera mættir og koma boltanum frá en ég er ekki búinn að sjá mörkin þannig ég bara get ekki sagt þér hvað fór úrskeiðis þar.“

Það sauð allt upp úr á hliðarlínunni eftir leik og fékk Logi Tómasson meðal annars að líta rauða spjaldið. Birnir hélt sér til hlés á meðan aðrir leikmenn stóðu í ströngu.

„Ég stóð þarna fyrir utan þetta, ég er nú frekar rólegur þannig ég stóð bara fyrir utan þetta. Það voru einhverjar svaka stympingar þarna en ég sá ekki beint hvað gerðist en ég tók eftir því að það lágu þarna einhverjir eftir þetta en ég þarf að sjá þetta aftur til að vita hvað gerðist.“

Birnir átti erfitt að koma orðum að því hversu svekktur hann væri að leikslokum.

„Mér fannst við stjórna þessu en svo gerist þetta undir lokin og maður er bara drullusvekktur. Ég hef aldrei verið jafn svekktur eftir einn fótboltaleik og við erum búnir að fá fimm mörk á okkur í síðustu tveimur leikjum sem er alltof mikið og við þurfum að skoða það betur en núna er ég bara ógeðslega svekktur.“

mbl.is