Sáttir með úrslitin

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH.
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Valur og FH gerðu 1:1 jafntefli í kvöld þegar liðin áttust við í 10. umferð Bestu deildar karla. Heimir Guðjónsson þjálfari FH hafði þetta að segja að leik loknum.

„Úr því sem komið var þá getum við verið sáttir með úrslitin. Fyrri hálfleikur var ekki góður af okkar hálfu og við vorum ekki klárir í seinni boltann. Aðalmálið var að þeir náðu að draga okkur út úr stöðum og opna okkur tiltölulega þægilega. Eftir 30 mínútur breyttum við um kerfi og náðum að jafna og vorum heppnir að sleppa inn í hálfleikinn með stöðuna 1:1.”

 Í síðari hálfleik misstu FH-ingar Jóhann Ægi Arnarsson útaf með rautt spjald eftir brot á Tryggva Hrafn Haraldssyni sem var kominn einn inn fyrir vörn FH.

„Við vorum góðir í seinni hálfleik, sérstaklega eftir að Jói (Jóhann Ægir Arnarsson) var rekinn af velli þá fannst mér þeir ekki skapa mikið og við áttum alveg hraðaupphlaup sem hefðu getað endað með einhverju. Við þurftum að þétta vörnina með Dani eftir rauða spjaldið og það skilaði sér í að verja stigið.”

Fyrir leik, hefðir þú tekið þessu jafntefli fyrirfram?

„Nei ég held ekki,” sagði Heimir í samtali við mbl.is.

mbl.is