Það sauð allt upp úr á Kópavogsvelli

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, var vægast sagt reiður undir lok …
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, var vægast sagt reiður undir lok leiks. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það sauð vægast sagt allt upp úr á Kópavogsvelli er Breiðablik og Víkingur úr Reykjavík gerðu hádramatískt 2:2-jafntefli í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld. 

Víkingar voru 2:0-yfir í hálfleik og héldu forystu sinni mestallan leikinn en í uppbótartíma gerðust rosalegar senur. Þá minnkaði Gísli Eyjólfsson metin í 2:1 á sjöttu mínútu uppbótartímans og svo á áttundu mínútu hans jafnaði Færeyingurinn Klæmint Olsen metin, en aðeins sex mínútum var bætt við. 

Þá sauð allt upp úr hjá Víkingum og Sölvi Geir Ottesen, aðstoðarþjálfari Víkinga, og Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, hundskömmuðu hvorn annan sem endaði með að sá fyrrnefndi var rekinn upp í stúku. 

Eftir það var mikill æsingur milli leikmanna og starfsmanna félaganna sem hópuðust saman og ýttu hvor öðrum en Logi Tómasson, bakvörður Víkinga, fékk einnig að líta rauða spjaldið eftir að flautað hafði verið til leiksloka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert