10. umferð: Tveir í 100, tveir með fyrsta mark, þrír nýliðar

Daníel Laxdal er leikjahæstur af núverandi leikmönnum deildarinnar.
Daníel Laxdal er leikjahæstur af núverandi leikmönnum deildarinnar. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Tveir leikmenn spiluðu sinn 100. leik í efstu deild í fótbolta í 10. umferð deildarinnar og annar vann stórsigur en hinn tapaði illa. Tveir skoruðu sitt fyrsta mark í deildinni og eitt lið tefldi fram þremur nýliðum.

Daníel Laxdal, varnarmaður Stjörnunnar, varð sjötti leikmaðurinn í sögu efstu deildar karla til að spila 280 leiki í deildinni þegar Garðbæingar unnu stórsigur á KA, 4:0, í gærkvöld. Hann er leikjahæstur af núverandi leikmönnum deildarinnar og vantar fimm leiki til að ná Atla Guðnasyni sem er fimmti leikjahæstur frá upphafi með 285 leiki.

Daníel Hafsteinsson lék sinn 100. leik í deildinni gegn Stjörnunni.
Daníel Hafsteinsson lék sinn 100. leik í deildinni gegn Stjörnunni. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Daníel Hafsteinsson, miðjumaður KA, lék sinn 100. leik í efstu deild í gærkvöld þegar Akureyrarliðið sótti Stjörnuna heim. Af þeim eru 89 fyrir KA og 11 fyrir FH.

Kjartan Henry Finnbogason skoraði sitt 140. deildamark á ferlinum í gærkvöld þegar hann jafnaði fyrir FH gegn Val, 1:1, á Hlíðarenda. Af þeim eru 54 í efstu deild hér á landi.

Gísli Eyjólfsson skoraði sitt 30. mark.
Gísli Eyjólfsson skoraði sitt 30. mark. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gísli Eyjólfsson varð sjötti leikmaðurinn til að skora 30 mörk fyrir Breiðablik í efstu deild þegar hann skoraði fyrra mark liðsins í jafnteflisleiknum sögulega gegn Víkingi á Kópavogsvellinum í gærkvöld, 2:2.

Jóhannes Kristinn Bjarnason úr KR skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild þegar hann jafnaði metin í 1:1 gegn Fylki í fjörugum jafnteflisleik liðanna í Árbænum í fyrrakvöld, sem endaði 3:3.

Felix Örn Friðriksson lék sinn 100. leik í deildinni og …
Felix Örn Friðriksson lék sinn 100. leik í deildinni og skoraði. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Felix Örn Friðriksson, vinstri bakvörður og kantmaður ÍBV, lék sinn 100. leik fyrir félagið í efstu deild gegn HK og hélt úpp á það með því að skora þriðja markið í góðum sigri Eyjamanna, 3:0.

Eyþór Daði Kjartansson skoraði í sama leik sitt fyrsta mark í efstu deild, þegar hann kom ÍBV í 2:0 beint úr aukaspyrnu. Þetta var aðeins þriðji leikur hans í deildinni.

Sigur ÍBV var sá fyrsti gegn HK á Íslandsmóti. Félögin hafa aðeins einu sinni áður leikið í sömu deild. Það var árið 2019 þegar bæði léku í úrvalsdeildinni og þá vann HK báðar viðureignir liðanna. Að öðru leyti hefur ÍBV verið í 1. deild þegar HK hefur leikið í efstu deild, og öfugt.

HK mistókst að skora í fyrsta skipti í tíu leikjum á þessu tímabili.

Eyþór Daði Kjartansson fagnar sínu fyrsta marki í efstu deild.
Eyþór Daði Kjartansson fagnar sínu fyrsta marki í efstu deild. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Stefán Stefánsson markvörður, Andri Már Harðarson og Ísak Aron Ómarsson úr HK léku allir sinn fyrsta leik í efstu deild gegn ÍBV í Vestmannaeyjum. Faðir Andra, Hörður Már Magnússon, lék á sínum tíma 290 deildaleiki fyrir ÍK, Val, Leiftur, HK og KS/Leiftur.

Framarar skoruðu í sínum tíunda leik í röð í deildinni þegar þeir unnu góðan sigur á Keflvíkingum í gærkvöld, 4:1. En þeim hefur ekki tekist að halda marki sínu hreinu í 11 leikjum í röð, í síðasta leiknum í fyrra og í fyrstu tíu leikjunum í ár.

Stefán Ingi Sigurðarson úr Breiðabliki er áfram markahæstur í deildinni með sjö mörk þó hann hafi ekki skorað gegn Víkingi en nú eru þrír leikmenn á hælum hans með sex mörk.

Úrslit­in í 10. umferð:
ÍBV - HK 3:0
Fylk­ir - KR 3:3
Stjarn­an - KA 4:0
Fram - Kefla­vík 4:1
Breiðablik - Vík­ing­ur R. 2:2
Val­ur - FH 1:1

Marka­hæst­ir í deild­inni:

7 Stefán Ingi Sig­urðar­son, Breiðabliki
6 Adam Ægir Páls­son, Val
6 Gísli Eyj­ólfs­son, Breiðabliki
6 Tryggvi Hrafn Har­alds­son, Val
5 Birn­ir Snær Inga­son, Vík­ingi
5 Fred Sarai­va, Fram
5 Guðmund­ur Magnús­son, Fram
5 Ísak Andri Sig­ur­geirs­son, Stjörn­unni
5 Kjart­an Henry Finn­boga­son, FH
5 Ni­kolaj Han­sen, Vík­ingi
5 Örvar Eggerts­son, HK
4 Andri Rún­ar Bjarna­son, Val
4 Aron Jó­hanns­son, Val
4 Bene­dikt Daríus Garðars­son, Fylki
4 Úlfur Ágúst Björns­son, FH
3 Arnþór Ari Atla­son, HK
3 Ásgeir Sig­ur­geirs­son, KA
3 Guðmund­ur Bald­vin Nökkva­son, Stjörn­unni
3 Gyrðir Hrafn Guðbrands­son, FH
3 Hösk­uld­ur Gunn­laugs­son, Breiðabliki
3 Klæmint Olsen, Breiðabliki
3 Ólaf­ur Karl Fin­sen, Fylki
3 Óskar Borgþórs­son, Fylki
3 Theódór Elmar Bjarnason, KR

Næstu leik­ir:
10.6. KA - Fylkir
10.6. KR - ÍBV
10.6. FH - Breiðablik
11.6. HK - Valur
11.6. Víkingur R. - Fram
11.6. Keflavík - Stjarnan

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert