Hóf 27. tímabilið á því að spila 400. leikinn

Kristján Ómar Björnsson með boltann í leik með Þrótti gegn …
Kristján Ómar Björnsson með boltann í leik með Þrótti gegn FH í úrvalsdeildinni árið 2009 en Davíð Þór Viðarsson fylgist með honum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristján Ómar Björnsson komst á dögunum í hóp þeirra íslensku knattspyrnumanna sem hafa spilað 400 deildaleiki á ferlinum, þegar hann hóf sitt 27. tímabil í meistaraflokki.

Kristján Ómar, sem er 42 ára gamall, spilar nú með Knattspyrnufélagi Kópavogs, KFK, í 4. deild og í fyrsta leik tímabilsins, gegn Vængjum Júpíters í Fagralundi í Kópavogi þann 11. maí, náði hann þessum stóra áfanga og spilaði 400. leikinn. Þeir eru núna orðnir 403 talsins.

Kristján hefur á þessum 27 ára meistaraflokksferli spilað í fimm efstu deildum Íslandsmótsins og skorað mörk í þeim öllum, auk þess sem hann hefur spilað í tveimur deildum í Svíþjóð.

Gilles Mbang Ondo og Kristján Ómar Björnsson í baráttu um …
Gilles Mbang Ondo og Kristján Ómar Björnsson í baráttu um boltann í leik Grindavíkur og Hauka í úrvalsdeildinni árið 2010. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Fyrsta deildaleikinn lék Kristján 16 ára gamall með Haukum í 3. deild árið 1997. Hann lék síðan með Stjörnunni í 1. deild en fór til Svíþjóðar og spilaði með unglinga- og varaliði úrvalsdeildarliðsins Örgryte en síðan með liði Askim í 3. og 2. deild.

Kristján kom aftur heim og lék með Haukum í 1. og 2. deild frá 2002 til 2007, en spilaði nokkra leiki með Linden í sænsku 3. deildinni árið 2004.

Kristján Ómar Björnsson og HK-ingarnir Hólmbert Aron Friðjónsson og Ólafur …
Kristján Ómar Björnsson og HK-ingarnir Hólmbert Aron Friðjónsson og Ólafur Örn Eyjólfsson í leik Hauka og HK í 1. deildinni árið 2014. mbl.is/Ómar Óskarsson

Kristján lék síðan þrjú tímabil í röð í úrvalsdeildinni, með Þrótti árin 2008 og 2009 og með Haukum árið 2010 en á þessum þremur  tímabilum missti hann aðeins af tveimur leikjum með sínum liðum, og skoraði sitt eina úrvalsdeildarmark á ferlinum í leik með Haukum gegn Fylki en þá tryggði hann liði sínu jafntefli, 1:1, með marki á 90. mínútu leiksins.

Kristján Ómar Björnsson í leik með KFK í 4. deildinni.
Kristján Ómar Björnsson í leik með KFK í 4. deildinni.

Kristján lék næstu fimm árin í 1. deild með Haukum og síðan Gróttu, eitt tímabil með ÍR í 2. deild, en hefur frá 2017 leikið í 3. og 4. deild með Álftanesi, Augnabliki, KÁ og KFK.

Leikir Kristjáns skiptast þannig að hann á að baki 64 leiki í úrvalsdeildinni, 183 í 1. deild, 34 í 2. deild, 25 í 3. deild og nú eru leikirnir í 4. deild orðnir 67 talsins. Hann hefur skorað 19 mörk í íslensku deildakeppninni. Þá lék Kristján 30 deildaleiki í Svíþjóð og skoraði í þeim 7 mörk.

Sjötti leikjahæstur á Íslandi

Í íslensku deildakeppninni er Kristján orðinn sjötti leikjahæstur frá upphafi með 373 leiki en þeir fimm sem hafa spilað fleiri leiki eru Gunnleifur Gunnleifsson, Óskar Örn Hauksson, Gunnar Ingi Valgeirsson, Hjörtur Júlíus Hjartarson og Mark Duffield.

Með þessu hafa 38 íslenskir knattspyrnumenn frá upphafi leikið 400 deildaleiki á ferlinum en síðastur til að bætast í þann hóp á dögunum var Birkir Bjarnason. Skömmu áður náðu Matthías Vilhjálmsson og Viðar Örn Kjartansson þessum stóra áfanga og því hafa fjórir náð honum á árinu 2023.

mbl.is