Víkingar fyrstir í undanúrslit

Ari Sigurpálsson kom Víkingum yfir.
Ari Sigurpálsson kom Víkingum yfir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrsta viðureignin í 8-liða úrslitum bikarkeppni karla var leikin á Þórsvellinum á Akureyri í kvöld. Sjálfir bikarmeistarar Víkinga voru í heimsókn í Þorpinu og bjuggust líklega flestir við nokkuð öruggum sigri Víkinga í leiknum. Fór svo að Víkingur vann leikinn 2:1.

Víkingarnir byrjuðu leikinn vel og það kom mark strax eftir fjórar mínútur. Undirbúningurinn að því var mjög flottur. Davíð Örn Atlason, sem spilaði sem vinstri bakvörður, sendi léttan bolta upp að endamörkum vinstra megin. Þetta var laus sending inn í opið svæði. Danijel Djuric kom hlaupandi af miðjum vítateignum og náði hann að teygja sig í boltann og senda fyrir markið. Þar kom Helgi Guðjónsson og klippti boltann í markið.

Þórsarar létu þetta ekki mikið á sig fá og þeim óx smám saman ásmegin. Þór jafnaði leikinn á 16. mínútu og var þar að verki ólíkindatólið Ingimar Arnar Kristjánsson. Hann skaut fyrst í stöngina áður en hann setti boltann í markið.

Víkingar voru með boltann fram að hálfleik en þeir náðu lítið að opna vörn Þórs og fór að gæta smá pirrings hjá Fossvogsbúum. Staðan var 1:1 í hálfleik og Þórsarar í fínum málum.

Það var svo strax eftir 26 sekúndur í seinni hálfleik að Víkingur skoraði á ný. Ari Sigurpálsson var þar að verki eftir snarpa sókn upp vinstri kantinn og góða fyrirgjöf frá Loga Tómassyni. Leið nú og beið án teljandi tíðinda og Víkingar virtust bara sáttir með forskot sitt.

En eitt mark er hættulega lítið forskot og á lokamínútunum komust Þórsarar óvænt í dauðafæri en náðu ekki að nýta það. Víkingar sigldu þessu svo bara í höfn og eru komnir í undanúrslit.

Í kvöld mætast Breiðablik og FH í Kópavoginum. Á morgun kemur svo í ljós hvaða tvö lið verða þau síðustu til að tryggja sér sæti í undanúrslitum.

Þór 1:2 Víkingur R. opna loka
90. mín. Við fáum fjórar uppbótamínútur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert