Valur fær til sín landsliðskonu

Berglind Rós Ágústsdóttir í Valstreyjunni.
Berglind Rós Ágústsdóttir í Valstreyjunni. Ljósmynd/Valur

Berglind Rós Ágústsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, hefur skrifað undir samning við uppeldisfélag sitt Val um að leika með liðinu á tímabilinu.

Berglind Rós kemur frá spænska 1. deildarfélaginu Huelva, þar sem hún lék 13 leiki og skoraði eitt mark á síðari hluta tímabilsins.

Áður hafði hún leikið með með Örebro um tveggja ára skeið og staðið sig einkar vel í sænsku úrvalsdeildinni.

Fyrstu meistaraflokksleiki sína lék hún fyrir Val áður en hún skipti til Aftureldingar og þaðan til Fylkis. Alls eru leikirnir í efstu deild 87 og A-landsleikirnir fjórir.

„Berglindi þekkjum við vel enda alin upp hjá félaginu og spilaði hún sinn fyrsta meistaraflokksleik àrið 2012 fyrir Val. Við hlökkum til að sjá Berglindi aftur í Valstreyjunni. Velkomin heim að Hlíðarenda,“ sagði meðal annars í tilkynningu frá knattspyrnudeild Vals.

Berglind Rós fær ekki leikheimild fyrr en 18. júlí, þegar félagaskiptaglugginn hér á landi opnar að nýju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert