„Ég er með hugmynd en ég ætla ekki að segja þér hana“

Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins.
Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins. mbl.is/Arnthor Birkisson

„Ég er mjög spenntur,“ sagði Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is á blaðamannafundi íslenska liðsins í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í dag.

Norðmaðurinn tilkynnti 25 manna leikmannahóp sinn á blaðamannafundi í Laugardalnum í dag fyrir leikina mikilvægu gegn Slóvakíu og Portúgal í J-riðli undankeppni EM 2024 en báðir leikirnir fara fram á Laugardalsvelli.

Leikirnir gefa orku og kraft

„Sem þjálfari þá lifir maður fyrir leikina og það eru leikirnir sem gefa manni orku og kraft. Maður undirbýr sig og liðið eins og best verður á kosið en á sama tíma veistu aldrei hver útkoman verður.

Adrenalínið flæðir um mann allan, rétt fyrir leik, og tilfinningin er í raun ólýsanleg, líka meðan á leik stendur og það er stærsta ástæðan fyrir því að maður er ennþá að í þessum bransa,“ sagði Hareide.

Landsliðsþjálfarinn vonast til þess að Íslendingar fjölmenni á völlinn á …
Landsliðsþjálfarinn vonast til þess að Íslendingar fjölmenni á völlinn á þjóðhátíðardaginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Uppselt á Portúgalsleikinn

Uppselt er á leik Íslands og Portúgals hinn 20. júní en það er ennþá hægt að kaupa miða á leik Íslands og Slóvakíu sem fram fer hinn 17. júní.

„Fullur völlur gefur okkur öllum aukaorku og sérstaklega leikmönnunum. Íslenskir stuðningsmenn eru stórkostlegir og þeir fylkja sér alltaf á bak við liðið, sama hvað.

Við þurfum svo sannarlega á því að halda. Leikurinn gegn Slóvakíu er að sjálfsögðu á þjóðhátíðardegi Íslendinga og það væri fátt betra en að fá fólk á völlinn og geta svo fagnað með þeim í leikslok.“

Jóhann Berg Guðmundsson, Alfreð Finnbogason og Aron Einar Gunnarsson eru …
Jóhann Berg Guðmundsson, Alfreð Finnbogason og Aron Einar Gunnarsson eru allir í íslenska landsliðshópnum. AFP

Með ákveðna hugmynd í hausnum

En er þjálfarinn búinn að ákveða byrjunarliðið fyrir leikinn gegn Slóvakíu?

„Ég er með hugmynd, ákveðna hugmynd í hausnum á mér, en ég ætla ekki að segja þér hana,“ bætti landsliðsþjálfarinn við í léttum tón í samtali við mbl.is.

Kristian Nökkvi Hlynsson er nýliði í íslenska landsliðshópnum.
Kristian Nökkvi Hlynsson er nýliði í íslenska landsliðshópnum. Ljósmynd/KSÍ
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert