Sigurmark í lokin kom KA áfram

Birgir Baldvinsson og Óskar Örn Hauksson í baráttu á Akureyri …
Birgir Baldvinsson og Óskar Örn Hauksson í baráttu á Akureyri í dag. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

KA og Grindavík mættust í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarkeppni karla í dag. Varð úr hörkuleikur þar sem spenna var allt til loka. KA leiddi 1:0 í hálfleik en Grindavík jafnaði í 1:1. KA skoraði svo sigurmark skömmu fyrir leikslok og fór þá leikurinn 2:1 fyrir KA sem er komið í undanúrslitin.

KA-menn hófu leikinn með látum og þeir lágu á Grindvíkingum fyrstu mínúturnar. Leikurinn jafnaðist svo en KA-menn voru þó meira í sókn. Aron Dagur Birnuson í marki Grindvíkinga hafði í nógu að snúast á gamla heimavellinum sínum og varði hann nokkrum sinnum vel áður en KA náði loks að skora.

Kom markið á síðustu sekúndum fyrri hálfleiks. Var það bakvörðurinn Birgir Baldvinsson sem braut ísinn en hann fékk boltann inni á teig Grindvíkinga og afgreiddi hann snyrtilega í markhornið, 1:0.

Segja má að fyrri hluti seinni hálfleiks hafi verið tíðindalítill eða allt þar til Grindavík jafnaði leikinn með glæsilegu marki. Þá smurði Marko Vardic boltann út við stöng en skotið var af löngu færi.

Staðan var þá 1:1 og Grindavík þjarmaði að KA næstu mínútur. Síðan leit bara allt út fyrir að leikurinn yrði framlengdur en KA-menn voru ekki á því.

Eftir mikið klafs og barning framan við teig Grindvíkinga þar sem menn féllu hver um annan þveran var boltanum spyrnt inn á Elfar Árna Aðalsteinsson. Hann var staddur í vítateignum og renndi boltanum til hliðar á Jakob Snæ Árnason. Hann náði ágætu skoti, sem fór í markið, 2:1. KA-menn héldu svo út leikinn og fögnuðu ákaft í leikslok.

Nú eru KA, Víkingur og Breiðablik komin í undanúrslit en á eftir kemur í ljós hvort KR eða Stjarnan bætist í pottinn.

KA 2:1 Grindavík opna loka
90. mín. Bjarni Aðalsteinsson (KA) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert