Klára með stæl og halda hreinu

Shaina Ashouri átti stórleik fyrir FH gegn Selfoss í kvöld.
Shaina Ashouri átti stórleik fyrir FH gegn Selfoss í kvöld. mbl.is/Jóhann Helgi Sigmarsson

„Mér finnst mikilvægt að klára með stæl og halda hreinu,“ sagði Sunneva Hrönn Sigurvinsdóttir fyrirliði FH kampakát eftir 2:0 sigur á Selfossi þegar liðin mættust í Hafnarfirði í kvöld til að leika í 7. umferð efstu deildar kvenna í fótbolta.

„Við ætluðum að pressa Selfoss framarlega því við vissum að það myndi virka og gerðum það, sérstaklega í fyrri hálfleik þegar við vorum mjög sprækar en síðan snerist leikurinn fyrst og fremst um baráttu en það rosalegur léttir að ná seinna markinu í lokin til að gera út um leikinn.“

Með sigrinum tókst nýliðum FH-kvenna að hoppa upp um tvö sæti og eru komnar í það fimmta með jafnmörg stig og Stjarnan í fjórða og einu stigi meira en Þór/KA.  Framan af mótinu var FH án stiga á botni deildarinnar en það sló FH-konur ekki útaf laginu.

„Við vorum alveg rólegar yfir byrjun okkar í mótinu því við vitum að þetta er langt sumar og jöfn deild svo það var ekkert stress í okkur. Við vissum að þetta myndi koma og um leið og við náðum fyrsta sigrinum gegn Keflavík færi þetta að smella saman svo þetta kemur okkur ekkert óvart.“

FH-konur spiluðu á stundum frábæran fótbolta og ekki hægt að sjá nein merki um óvana nýliða og fyrirliðinn tók undir það.  „Eins og sást í dag þegar við spiluðum gegn liði sem hefur verið í efstu deild í mörg ár, þá var klárt hvort var betra liðið á vellinum og mér finnst við hafa sýnt inni á vellinum að við eigum heima í þessari deild og ætlum að halda áfram að sanna það í sumar,“ sagði Sunneva fyrirliði.

Pressuðum í níutíu mínútur

Shaina Ashouri átti frábæran leik fyrir FH og alltaf eitthvað að gerast í kringum hana. „Ég sendi hrós á Selfoss fyrir að berjast gegn okkur en við börðumst vel og héldum hreinu og það var líka gott að skora annað mark í lokin til að tryggja sigurinn.  Markmiðið okkar var að pressa framarlega á vellinum því við sáum að það myndi skila sér svo við héldum því áfram í níutíu mínútur.  Við byrjuðum deildina ekki nógu vel en leikur okkar verður betri með hverjum leiknum enda er markmiðið að sanna okkur í deildinni og við höldum áfram,“  sagði Shaina eftir leikinn.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert