KR í undanúrslit eftir framlengingu

Daníel Laxdal og Kristján Flóki Finnbogason í baráttu á Meistaravöllum …
Daníel Laxdal og Kristján Flóki Finnbogason í baráttu á Meistaravöllum í kvöld. Kristján Flóki kom KR yfir snemma leiks. mbl.is/Eggert

KR er komið í undanúrslit bikarkeppni karla í knattspyrnu eftir sigur á Stjörnunni í Vesturbænum í kvöld, 2:1. Leikurinn var jafn, 1:1, eftir venjulegan leiktíma en Ægir Jarl Jónasson skoraði sigurmarkið í framlengingu.

Fyrri hálfleikurinn var nokkuð jafn en gestirnir úr Garðabæ byrjuðu örlítið betur. Liðið hélt betur í boltann og eftir einungis tvær mínútur skoraði Guðmundur Kristjánsson mark fyrir Stjörnuna, sem var þó dæmt af vegna rangstöðu. Virtist það vera mjög tæpt og erfitt að segja til um hvort dómurinn væri réttur eða ekki.

Bæði lið áttu ágætis tilraunir framan af leik en fyrsta löglega mark leikins kom á 12. mínútu. Theodór Elmar Bjarnason færði boltann þá út til vinstri á Kristinn Jónsson sem var kominn mjög framarlega á kantinum. Hann renndi boltanum með grasinu inn á Atla Sigurjónsson á teignum sem átti frábæra fyrirgjöf á Kristján Flóka Finnbogason sem skallaði boltann í netið af stuttu færi.

Eftir markið náðu heimamenn betri tökum á leiknum og voru meira með boltann. Liðið virtist hafa svör við flestum sóknaraðgerðum gestanna sem fengu ekki mörg tækifæri. Hjá KR fékk miðvörðurinn Jakob Franz Pálsson mjög gott færi þegar skammt var til hálfleiks en hann átti þá flottan sprett úr vörninni og fékk boltann í teignum eftir skemmtilegt þríhyrningsspil við Kristján Flóka. Björn Berg Bryde, varnarmaður Stjörnunnar kom sér þó fyrir skot Norðanmannsins Jakobs og var staðan því enn 1:0 þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik.

Fyrsta færi seinni hálfleiks kom á 51. mínútu en Kristinn Jónsson átti þá flotta fyrirgjöf á Kristján Flóka, sem náði fínum skalla sem small í þverslánni af stuttu færi. Jóhannes Kristinn Bjarnason fylgdi svo á eftir en skalli hans var laus og Árni Snær Ólafsson í marki Stjörnunnar greip boltann auðveldlega.

Á 61. mínútu mátti svo engu muna að gestirnir jöfnuðu metin. Emil Atlason fékk þa boltann í teignum og náði nokkuð föstu skoti á markið en Simen Kjellevold varði á einhvern ótrúlegan hátt með andlitinu, án þess að vita nokkuð hvað væri að gerast.

Fjórum mínútum síðar fengu gestirnir svo annað gott færi. Adolf Daði Birgisson átti þá flotta fyrirgjöf á Örvar Loga Örvarsson en Jakob Franz náði að koma sér niður á línu og bjarga marki.

Á 72. mínútu fengu gestirnir svo vítaspyrnu. Emil Atlason ætlaði þá að skalla fyrirgjöf á sama tíma og Simen Kjellevold kom vaðandi út úr marki KR-inga. Kjellevold virtist fara með hendurnar beint í hausinn á Emil og var mjög skömmustulegur eftir atvikið svo þetta virðist hafa verið réttur dómur hjá Ívari Orra.

Hilmar Árni Halldórsson fór á vítapunktinn en skot hans fór nokkuð hátt yfir markið. Hann ætlaði greinilega að klína boltanum í samskeytin en geigaði all svakalega og KR því enn í forystu.

Það var svo komið fram í uppbótartíma þegar Stjarnan skoraði loksins verðskuldað jöfnunarmark. Liðið fékk hornspyrnu á þriðju mínútu uppbótartíma sem var tekin stutt á varamanninn Róbert Frosta Þorkelsson. Hann lagði boltann út á vítateigslínu á annan varamann, Baldur Loga Guðlaugsson, sem smellti boltanum í báðar stangirnar og inn. Afar glæsilegt mark hjá Baldri Loga.

KR fékk tækifæri til að komast aftur í forystu á fimmtu mínútu uppbótartímans. Jóhannes Kristinn gerði þá frábærlega hægra megin á vellinum, kom sér inn á vítateiginn og lagði boltann fyrir markið á varamanninn Aron Þórð Albertsson, sem var aleinn á markteig. Honum tókst þó á einhvern ótrúlegan hátt að skófla boltanum hátt yfir markið og staðan því jöfn að loknum venjulegum leiktíma. Því var gripið til framlengingar.

Markaskorarinn Baldur Logi fékk gott færi á 101. mínútu þegar hann slapp óvænt einn í gegnum vörn KR. Baldur var þó of lengi að athafna sig sem þrengdi færið fyrir hann og skotið með vinstri fæti úr teignum var slakt, framhjá nærstönginni.

Tveimur mínútum síðar, á 103. mínútu, komst KR svo aftur yfir. Varamaðurinn Benóný Breki Andrésson fann þá Ægi Jarl Jónasson við vítateigslínuna. Hann fór mjög skemmtilega framhjá Birni Berg Bryde, á vinstri fótinn og smellti boltanum glæsilega með grasinu í hægra hornið. Einstaklega smekklega gert hjá Ægi.

Eftir markið var leikurinn í ágætis jafnvægi og þrátt fyrir að gestirnir væru töluvert meira með boltann tókst þeim illa að skapa sér færi. KR-ingar vörðust virkilega vel, voru þéttir og hreinsuðu boltanum langt frá marki sínu í hvert skipti sem hann kom nálægt því.

KR mætir Víkingi í Víkinni í undanúrslitinum en dregið var í hálfleik í kvöld. Í hinum undanúrslitaleiknum mætast Breiðablik og KA.

KR 2:1 Stjarnan opna loka
120. mín. Tveimur mínútum bætt við.
mbl.is