Mínir leikmenn eru brjálaðir

Helgi Sigurðsson þjálfari Grindavíkur fylgist með gangi mála í leiknum …
Helgi Sigurðsson þjálfari Grindavíkur fylgist með gangi mála í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Helgi Sigurðsson er að gera góða hluti með Lengjudeildarlið Grindvíkinga í knattspyrnu. Hann mætti með sína menn á Greifavöllinn á Akureyri í dag.

KA og Grindavík þurftu að gera út um það hvort liðið kæmist í undanúrslit í Mjólkurbikarnum. Eftir mikinn barning og nokkuð jafnan leik þá var það KA sem kreisti fram 2:1-sigur og kom sigurmarkið rétt fyrir leikslok.

Helgi mætti í viðtal skömmu eftir leik og var hann vitaskuld svekktur.

„Mér fannst við spila mjög vel í seinni hálfleiknum. Við ræddum það í hálfleik að við þyrftum að hætta að sýna KA þessa virðingu og þora meira. Mér fannst við gera það vel, héldum í boltann og vorum ákafir, gáfum engan frið og jöfnum leikinn í 1:1. Mér fannst við bara vera ofan á í seinni hálfleik. Þeir áttu varla færi fram að þessu marki í lokin. Þetta mark kom á ömurlegum tíma.

En við sýndum það að þegar menn hafa trú og spila boltanum þá getum við unnið hvaða lið sem er. Það vantaði kannski upp á það í fyrri hálfleik en seinni hálfleikurinn var frábær. Heilt yfir þá fannst mér tapið ósanngjarnt.“

Hvað segir þú um sigurmark KA? Í aðdraganda þess voru menn að falla hver um annan þveran framan við vítateig ykkar en dómarinn lét leikinn ganga.

„Ég sé þetta ekki nógu vel. Eins og þú segir þá voru allir að detta þarna. Okkar leikmenn segja að það hafi verið klárt brot á varnarmanni okkar og svo berst boltinn inn á teig. Ég þarf bara að skoða þetta betur, er ekki svo heppinn að hafa séð þetta í sjónvarpinu. Mínir leikmenn eru brjálaðir yfir þessu og vilja meina að það hafi verið brotið á okkur í aðdraganda marksins,“ sagði Helgi hinn rólegasti.

„Nú sleikjum við bara sárin í kvöld. Við ætluðum okkur lengra en það er leikur eftir fjóra daga og það er bara næsta mál. Allir leikirnir í Lengjudeildinni eru erfiðir og þetta er jöfn deild. Við erum í langhlaupi. Við þurfum bara að vera einbeittir og spila eins og við gerðum í seinni hálfleik, þá kvíði ég engu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert