Sér Aron og Jóhann Berg fyrir sér sem miðjumenn

Jóhann Berg Guðmundsson er hugsaður sem miðjumaður hjá landsliðinu.
Jóhann Berg Guðmundsson er hugsaður sem miðjumaður hjá landsliðinu. Ljósmynd/KSÍ

Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, kveðst sjá tvo af reynslumestu leikmönnum liðsins fyrir sér sem miðjumenn.

Þessu greindi hann frá á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í dag, þegar hann tilkynnti fyrsta landsliðshóp sinn, fyrir leiki gegn Slóvakíu og Portúgal í undankeppni EM síðar í mánuðinum.

Aron Einar er miðjumaður að upplagi en hefur undanfarin ár mestmegnis leikið sem miðvörður hjá Al-Arabi í Katar og í síðustu verkefnum með landsliðinu.

„Ég sé hann fyrir mér sem miðjumann, fyrst og fremst. Hann getur hins vegar leyst stöðu miðvarðar sem er mjög jákvætt fyrir okkur en ég sé hann fyrir mér sem miðjumann eins og staðan er í dag,“ sagði Hareide á fundinum.

Jóhann Berg er þá kantmaður að upplagi en lék gjarna sem fremsti miðjumaður hjá Burnley í ensku B-deildinni á nýafstöðnu tímabili, auk þess sem Arnar Þór Viðarsson prófaði hann á miðjunni í fyrsta leik undankeppninnar, 3:0-tapi fyrir Bosníu og Hersegovínu í mars síðastliðnum.

Ég sé hann fyrir mér sem miðjumann í dag, ekki sem kantmann,“ sagði landsliðsþjálfarinn.

mbl.is
Loka