Svekkjandi að vera úr leik í bikarnum því þar lágu tækifæri

Einbeittur Jökull Elísabetarson á hliðarlínunni í kvöld.
Einbeittur Jökull Elísabetarson á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, var að vonum svekktur eftir tap gegn KR í átta liða úrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu á Meistaravöllum í kvöld. Leiknum lauk með sigri KR, 2:1, eftir framlengingu.

„Ég er bara mjög stoltur af liðinu. Mér fannst við spila frábæran leik á mjög erfiðum velli gegn mjög góðu liði. Mér fannst við hafa yfirhöndina, þeir skora snemma og ætla bara að verja sitt, sem ég skil vel. Mér fannst fótboltinn frábær, við sköpuðum færi og hefðum getað skorað fleiri mörk. Mér fannst strákarnir verðskulda að fá meira út úr þessu sem er svekkjandi en það er fullt jákvætt sem við tökum út úr þessu.“

Stutt er síðan liðin mættust síðast á Meistaravöllum en þá var völlurinn í talsvert verra standi. Það var því aðeins meira um gæði í leiknum í kvöld.

„Við fórum öðruvísi inn í þann leik og lærðum af því, völlurinn var örlítið betri í dag. Það var bara hugrekki í liðinu mínu, við vorum ákveðnir og ég er bara mjög stoltur af þeim.

Við viljum auðvitað halda hreinu. Við viljum ekki fá á okkur tvö mörk. Við hefðum getað skorað fleiri mörk og þá viljum við auðvitað skora fleiri mörk.“

Stjarnan skoraði jöfnunarmark í uppbótartíma venjulegs leiktíma sem knúði fram framlengingu. Þar reyndust heimamenn í KR hins vegar sterkari og skoruðu sigurmark.

„Ég er alls ekki ósáttur með það hvernig við komum út í framlengingunni. Mér fannst við vera líklegri ef eitthvað er og fengum mjög gott færi áður en þeir skora. Auðvitað getur svona leikur fallið hvorum megin sem er en mér fannst þeir vera þreyttir og við vildum keyra á þá. Svona getur komið fyrir og við hefðum kannski getað varist sigurmarkinu betur en ég er bara mjög sáttur með það hvernig við komum út.“

Ísak Andri Sigurgeirsson fór af velli eftir tæplega klukkutíma leik en hann virtist eitthvað hafa meitt sig. Baldur Logi Guðlaugsson kom inn í hans stað og var það hann sem skoraði jöfnunarmark Stjörnunnar.

„Það var bara kominn tími á breytingu. Við gerðum kannski breytingar full seint í dag en Baldur kom frábærlega inn, mjög öflugur. Ég er mjög glaður með hann.“

Jökull segir það vera svekkjandi að vera úr leik í bikarnum.

„Menn eru bara svekktir. Við erum dottnir út úr bikarnum og þar lágu tækifæri. Það er mjög svekkjandi að leggja svona mikið í þetta, koma á þennan völl og spila svona vel, halda þessari ákefð og halda þeim á sínum vallarhelmingi en fá ekkert út úr því. Við sköpuðum færin og auðvitað eru menn svekktir.

Við tökum nudd, heita pottinn og kalda pottinn á morgun. Þá erum við bara tilbúnir og keyrum á þetta áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert