Þróttur upp í annað sæti

Álfheiður Rósa Kjartansdóttir, fyrirliði Þróttar, með boltann í kvöld.
Álfheiður Rósa Kjartansdóttir, fyrirliði Þróttar, með boltann í kvöld. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Þróttur úr Reykjavík er kominn í annað sæti Bestu deildar kvenna eftir 3:1-sigur á Tindastóli í 7. umferð deildarinnar á Sauðárkróki í kvöld. 

Stelpurnar úr Laugardalnum byrjuðu leikinn af miklum krafti og fyrsta mark þeirra kom eftir einungis fjórar mínútur. Þá fékk Ólöf Sigríður Kristinsdóttir sendingu inn í teig frá Sæunni Björnsdóttur og potaði honum yfir Monicu Wilhelm í marki Tindastóls, 1:0. 

Þróttarar voru í draumalandi á tíundu mínútu en þá tvöfaldaði Tanya Boychuk forystu gestanna með mjög svipuðu marki og því fyrsta. Þá gaf Mikenna McManus boltann fyrir beint á Boychuk sem potaði honum einnig yfir Wilhelm og kom Þrótti í 2:0. 

Þróttarar stjórnuðu fyrri hálfleiknum frá A-Ö og voru mun líklegri til að bæta við mörkum heldur en að Tindastóll myndi minnka muninn. Fleiri urðu mörkin þó ekki í hálfleiknum og fóru Þróttarar með tveggja marka forystu til búningsklefa. 

Sömu söguna má segja um síðari hálfleikinn en á 64. mínútu þrefaldaði Ólöf Sigríður forystu Þróttar. Þá smurði hún boltanum yfir Wilhelm í markinu og í fjærhornið hægra megin. Þetta var listilega gert og úrslitin gott sem ráðin, 3:0. 

Tindastóll fékk aftur á móti líflínu á 76. mínútu þegar að Álfhildur Rósa Kjartansdóttir braut á Murielle Tiernan inn í vítateig Þróttar og Reynir Ingi Finnsson dómari benti á punktinn. Úr vítinu skoraði Hannah Jane Cade og minnkaði muninn fyrir heimakonur. 

Þróttarar voru þó agaðir sem eftir lifði leiks og sigldu sigrinum heim, 3:1. 

Þróttur er nú í öðru sæti deildarinnar með 13 stig. Tindastóll er enn í sjötta með átta. 

Tindastóll mætir Val á Hlíðarenda í næsta leik sínum en Þróttarar fá Keflavík í heimsókn sama dag. 

M-ein­kunna­gjöf­in og ein­kunn dóm­ara verða í Morg­un­blaðinu í fyrra­málið.

Tindastóll 1:3 Þróttur R. opna loka
90. mín. Margrét Edda Lian Bjarnadóttir (Þróttur R.) á skot framhjá +4 Komin í fínasta færi en setur boltann í hliðarnetið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert