Nei, ég er það eiginlega ekki

Anna María Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar.
Anna María Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Við þurfum að fara að safna fleiri stigum,“ sagði fyrirliði Stjörnunnar Anna María Baldursdóttir í samtali við mbl.is eftir jafntefli gegn Breiðabliki, 1:1, í Bestu deild kvenna í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld.

Anna María sagðist ekki geta verið sátt með stigið og fannst henni Stjarnan hafa verðskuldað öll þrjú.

„Nei, ég er það eiginlega ekki. Mig langaði í öll þrjú og mér fannst við alveg eiga það skilið. 

Ég held að bæði lið hafi bara verið að fikra sig inn í leikinn í fyrri hálfleik og aðeins sjá hvað hitt liðið ætlaði að gera, það vantaði aðeins upp á taktinn. Svo fannst mér við stjórna leiknum.

Þær komust aðeins inn í leikinn eftir sitt mark en mér fannst við samt vera með stjórn á þessu mest allan tímann.“ 

Mark Stjörnunnar skoraði Andrea Mist Pálsdóttir beint úr hornspyrnu. Anna sagði það hafa verið „mjög vel gert hjá henni og að þær hafi „skorað svona mörk áður“.

„Þetta var mjög gott mark.“

Anna er ágætlega sátt með tímabilið hingað til en vill að Stjörnukonur fari að safna fleiri stigum, en eins og stendur eru Garðbæingar í fjórða sæti með 11 stig, fimm minna en Valur á toppnum. Ásamt því leggst leikurinn gegn FH næstu helgi vel í Andreu en hún er á því máli að hann sé alveg jafn mikilvægur og leikurinn í kvöld.  

„Við hefðum alveg viljað taka fleiri stig en við erum svona á pari. Við þurfum samt að fara að safna fleiri stigum, það er alveg klárt. 

FH-stelpurnar eru mjög sterkar þannig við verðum að vera vel undirbúnar í þann leik og gíra okkur vel upp fyrir það. Það er alveg jafn mikilvægur leikur og þessi í dag,“ sagði Anna að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert