Seldum leikmenn sem höfðu kannski ekki trú

Sævar Atli Magnússon í viðtali fyrir æfingu í dag.
Sævar Atli Magnússon í viðtali fyrir æfingu í dag. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Það er rosalega erfitt! Ef ég á að vera alveg hreinskilinn er ég ennþá að ná mér niður,“ sagði Sævar Atli Magnússon, sóknarmaður danska liðsins Lyngby og íslenska landsliðsins, í samtali við mbl.is.

Hann var þar spurður hvernig gengi að ná sér niður á jörðina eftir að Íslendingalið Lyngby bjargaði sæti sínu í dönsku úrvalsdeildinni með lygilegum hætti um liðna helgi.

„Það voru rugluð fagnaðarlæti, léttir, gleði og allar tilfinningarnar sem maður getur nefnt. Ég er svona að koma mér aðeins niður núna og það er gott að gera það með því að vera mættur á Laugardalsvöll að æfa með A-landsliðinu,“ bætti Sævar Atli við er hann var tekinn tali skömmu fyrir landsliðsæfingu.

Lyngby var með 5 stig eftir 16 umferðir en vann sér að lokum inn 28 stig, sem nægði til þess að halda sætinu í deildinni. Hvernig fór liðið að því?

Gáfumst ekki upp

„Ég veit ekki hvernig á að útskýra það. Það er ótrúlegt að við höfum ekki gefist upp því við í liðinu þurfum að vera allir í þessu saman. Ef 3-4 leikmenn hefðu gefist upp hefði þetta verið miklu erfiðara.

Að sjálfsögðu seldum við nokkra leikmenn í janúar sem höfðu kannski ekki trú á þessu, langaði að fara eitthvað annað og voru búnir að standa sig vel og vinna fyrir því.

En ég held að það að allur hópurinn hafi aldrei gefist upp á neinum tímapunkti hafi haft sitt að segja. Ég ætla ekki að fara að segja að allir hafi haft mikla trú á þessu en við gáfumst ekki upp. Það er held ég það stærsta í þessu,“ útskýrði Sævar Atli.

mbl.is