„Þá er Gylfi að sjálfsögðu velkominn aftur“

Gylfi Þór Sigurðsson hefur ekki spilað fótbolta í rúmlega tvö …
Gylfi Þór Sigurðsson hefur ekki spilað fótbolta í rúmlega tvö ár. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, vonast enn til þess að Gylfi Þór Sigurðsson snúi aftur í íslenska liðið.

Gylfi, sem er 33 ára gamall, hefur ekki leikið fótbolta undanfarin tvö ár en hann lék sinn síðasta A-landsleik gegn Danmörku í Þjóðadeildinni á Parken í nóvember 2020.

Hareide tók við þjálfun íslenska liðsins í apríl á þessu ári eftir að Arnari Þór Viðarssyni var sagt upp störfum en hann stýrir liðinu í sínum fyrstu landsleikjum gegn Slóvakíu og Portúgal í undankeppni EM, dagana 17. og 20. júní.

„Ég veit ekki hver staðan á honum er en ég vona ennþá að hann snúi aftur,“ sagði Hareide í samtali við mbl.is á blaðamannafundi landsliðsins í höfuðstöðvum KSÍ í gær.

„Hann þarf að finna sér lið, ef hann vill spila aftur, sem er í ágætis gæðaflokki og þá er hann að sjálfsögðu velkominn aftur,“ bætti Hareide við í samtali við mbl.is.

Ómar Smárason og Åge Hareide á blaðamannafundi íslenska liðsins í …
Ómar Smárason og Åge Hareide á blaðamannafundi íslenska liðsins í dag. mbl.is/Arnþór Birkisson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert