9. umferð: Skoraði 80. markið - 700. mark Þórs/KA

Katrín Ásbjörnsdóttir skoraði sitt 80. mark í deildinni.
Katrín Ásbjörnsdóttir skoraði sitt 80. mark í deildinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ein af þeim reyndari í Bestu deild kvenna í fótbolta skoraði sitt 80. mark í deildinni í níundu umferðinni í gærkvöldi, á meðan önnur kornung skoraði tímamótamark fyrir sitt félag.

Katrín Ásbjörnsdóttir skoraði sitt 80. mark í efstu deild þegar hún gerði fyrra mark Breiðabliks í jafnteflinu við Þrótt, 2:2. Hún er 27. konan frá upphafi sem skorar 80 mörk í deildinni og deilir nú 25.-27. sæti markalistans með Dönku Podovac, sem lék með Keflavík, Fylki, Þór/KA, ÍBV og Stjörnunni frá 2006 til 2014, og Margréti R. Ólafsdóttur sem lék með Breiðabliki frá 1991 til 2003.

Þessi 80 mörk Katrínar skiptast þannig að 14 eru fyrir KR, 23 fyrir Þór/KA, 40 fyrir Stjörnuna og nú 3 fyrir Breiðablik.

Una Móeiður Hlynsdóttir hefur skorað í tveimur fyrstu byrjunarliðsleikjum sínum …
Una Móeiður Hlynsdóttir hefur skorað í tveimur fyrstu byrjunarliðsleikjum sínum í deildinni. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Una Móeiður Hlynsdóttir skoraði 700. mark Þórs/KA í efstu deild þegar hún kom Akureyrarliðinu í 3:0  gegn Tindastóli. Hún hefur nú skorað í báðum leikjum sínum í byrjunarliði í deildinni.

Sigur Þórs/KA á Tindastóli, 5:0, er sá stærsti hjá Akureyrarliðinu í deildinni í fjögur ár, eða síðan það vann HK/Víking 6:0 árið 2019.

Mexíkóska landsliðskonan Jimena López skoraði sitt fyrsta mark í deildinni þegar hún gerði sigurmark Selfyssinga gegn Stjörnunni, 2:1.

Jimena López skoraði sitt fyrsta mark fyrir Selfoss.
Jimena López skoraði sitt fyrsta mark fyrir Selfoss. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Sierra Maria Lelii skoraði sitt fyrsta mark í deildinni þegar hún jafnaði fyrir Þrótt gegn Breiðabliki í 1:1. Sierra hefur hins vegar skorað 23 mörk í 1. og 2. deild þar sem hún hefur spilað með Þrótti, Haukum, SR og ÍH, en þetta er hennar fyrsta tímabil í efstu deild.

Dominique Randle, landsliðskona Filippseyja, skoraði sitt fyrsta mark í deildinni þegar hún kom Þór/KA yfir gegn Tindastóli, 1:0.

Bríet Jóhannsdóttir úr Þór/KA lék sinn fyrsta leik í efstu deild í gærkvöld þegar hún kom inn á sem varamaður gegn Tindastóli.

Bryndís Arna Níelsdóttir skoraði sitt sjöunda mark fyrir Val í deildinni í ár og er áfram markahæst, núna tveimur mörkum á undan næstu leikmönnum.

Tanya Boychuk skoraði sitt fimmta mark fyrir Þrótt í jafnteflisleiknum gegn Breiðabliki og hefur skorað í fjórum af síðustu fimm leikjum liðsins.

Bryndís Arna Níelsdóttir bætti við sínu sjöunda marki fyrir Val …
Bryndís Arna Níelsdóttir bætti við sínu sjöunda marki fyrir Val og er markahæst í deildinni. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Úrslit­in í 9. um­ferð:
FH - ÍBV 2:1
Selfoss - Stjarnan 2:1
Breiðablik - Þróttur R. 2:2
Keflavík - Valur 1:1
Þór/KA - Tindastóll 5:0

Marka­hæst­ar:
7 Bryn­dís Arna Ní­els­dótt­ir, Val
5 Sandra María Jessen, Þór/​​​​​​KA

5 Tanya Boychuk, Þrótti
4 Andrea Rut Bjarna­dótt­ir, Breiðabliki
4 Linli Tu, Kefla­vík
4 Shaina Ashouri, FH
4 Tayl­or Ziemer, Breiðabliki
3 Freyja Karín Þor­varðardótt­ir, Þrótti
3 Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Stjörnunni
3 Hafrún Rakel Hall­dórs­dótt­ir, Breiðabliki
3 Hulda Ósk Jónsdóttir, Þór/KA
3 Katrín Ásbjörnsdóttir, Breiðabliki
3 Mel­issa Garcia, Tinda­stóli

Næstu leik­ir:
25.6. Þór/KA - Stjarnan
25.6. Breiðablik - Valur
26.6. Selfoss - ÍBV
26.6. FH - Þróttur R.
26.6. Keflavík - Tindastóll

mbl.is