Mega ekki brenna út þegar leikið er lengi á þriggja daga fresti

Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Breiðabliks.
Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Breiðabliks. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er sáttur með sigurinn, mörkin fimm og að við náum að náum að nota marga leikmenn sem sleppa allir vel frá leiknum svo allir ættu að vera klárir í verkefnið á þriðjudaginn,“  sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Breiðabliks eftir 5:1 sigur á Fylki þegar liðin mættust í 14. umferð efstu deildar karla í Kópvoginum í kvöld.

„Okkar fannst erfitt að brjóta Fylkismenn á bak aftur og fyrri hálfleikur var frekar lokaður, við vorum ekki alveg nógu duglegir að fara á bak við þá.  Hefðum getað verið aðeins duglegri við það en í síðari hálfleik, fyrir utan tíu mínútna kafla þegar Fylkir skorar, náum við stjórn á leiknum og þegar Fylkismenn fara að færa sig ofar á völlinn raknaði þetta eiginlega upp og varð opnara, sem við nýttum vel en hefðum jafnvel getað skorað fleiri mörk.“

Breiðablik hefur staðið í ströngu, þá ekki bara deild og bikar heldur gert góða hluti í Evrópukeppninni og næsta þriðjudag byrja þeir í 1. umferð Evrópukeppninnar enda segir þjálfarinn stranga törn framundan.  „Við þurfum að huga að því að við þurfum að spila um nokkurn tíma á þriggja daga fresti því einhverjir leikmenn eru tæpir og aðrir hafa spilað margar mínútur í tuttugu og einum leik í öllum keppnum, sem er býsna mikið á ekki lengri tíma.  Við verðum þá að passa að menn brenni ekki út svo það var kærkomið að geta gefið til dæmis Höskuldi fyrirliða hvíld. Við erum ánægðir með það nú eru allir í hópnum í leikæfingu og geta tekið sín hlutverk í álaginu sem er framundan.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert