Ekki alvarlega meiddur

Damir Muminovic þurfti að fara af velli eftir að hafa …
Damir Muminovic þurfti að fara af velli eftir að hafa skorað sigurmarkið. Ljósmynd/Inpho Photography

Knattspyrnumaðurinn Damir Muminovic, miðvörður Breiðabliks, verður líklega klár í leikinn gegn Fram næsta föstudagskvöld í Bestu deild karla en hann þurfti að fara af velli á 73. mínútu gegn Shamrock Rovers í fyrri leik liðanna í 1. umferð Meistaradeildarinnar í Dublin í kvöld. 

Vann Breiðablik glæsilegan 1:0-sigur þar sem títtnefndur Damir skoraði sigurmarkið með hörkuskoti lengst utan teigs eftir útfærslu úr aukaspyrnu. 

Hann fann aftur á móti fyrir óþægindum á 63. mínútu og settist niður til þess að fá aðhlynningu. Damir hélt þó leik áfram en tíu mínútum síðar var honum skipt af velli. 

Kristinn Steindórsson, Viktor Karl Einarsson og Davíð Örn Atlason fagna …
Kristinn Steindórsson, Viktor Karl Einarsson og Davíð Örn Atlason fagna með 65 stuðningsmönnum Blika eftir leik. Ljósmynd/Inpho Photography

Mbl.is náði í Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfara Kópavogsliðsins, eftir leik en þar sagði hann Damir hafa fengið tak í nárann og að hann gerði ráð fyrir því að miðvörðurinn yrði klár gegn Fram á föstudaginn. 

„Ég geri ráð fyrir honum á föstudaginn, ef ekki þá þá pottþétt á þriðjudaginn, það er það sem ég heyri,“ sagði Óskar Hrafn en Breiðablik mætir Shamrock Rovers í seinni leik liðanna á Kópavogsvelli næsta þriðjudag. 

„Ég get þó ekki staðfest það alveg 100%, það kemur betur í ljós á morgun,“ bætti Óskar við en endanlegar fregnir um ástand Damirs berast á morgun. 

Ítarlegra viðtal við Óskar Hrafn um leikinn verður á mbl.is síðar í kvöld.

Óskar Hrafn Þorvaldsson á hliðarlínunni í dag.
Óskar Hrafn Þorvaldsson á hliðarlínunni í dag. Ljósmynd/Inpho Photography
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert