Ætli við höfum ekki átt tuttugu skot á mark Vals

Guðmundur Kristjánsson fyrirliði Stjörnunnar.
Guðmundur Kristjánsson fyrirliði Stjörnunnar. mbl.is/Kristinn Steinn

„Mér finnst bara súrt að tapa og ná ekki að skora því við fáum mörg tækifæri til þess, ætli við höfum ekki átt eitthvað um tuttugu skot á mark Vals en þetta var ekki okkar dagur til að skora,“ sagði Guðmundur Kristjánsson fyrirliði Stjörnunnar sem þurfti að lúta í gras gegn Val að Hlíðarenda í kvöld er leikið var í efri hluta efstu deildar karla í fótbolta.

„Mér fannst þetta þannig dagur að við náum ekki að pota boltanum inn, erum mikið í kringum mark Vals en náum ekki afgerandi skotum, þetta var svolítið í varnarmann og framhjá en það er stundum þannig.“

Valsmenn eru nú öruggir með þátttöku í Evrópukeppninni, Sambandsdeildinni, en Stjarnan getur enn náð þangað en Guðmundur fyrirliði segir áherslu liðsins ekki þar.  „Við hugsum fyrst og fremst um að taka einn leik fyrir í einu og bæta frammistöðuna.  Nú erum við í keppni um Evrópusæti og það er nokkur með í því en fyrst og fremst þurfum við að taka þennan leik og greina hann, sjá hvað gekk vel og hvað gekk ekki nógu vel, fara svo með það inn í næsta leik.  Við horfum ekkert mikið lengra en það, sem hefur reynst okkur vel undanfarið – að horfa bara stutt fram í tímann, bæta leik og þróa, taka þetta þannig,“ sagði fyrirliðinn.  

mbl.is