Ætluðum að þora

Katla Tryggvadóttir og Sandra María Jessen í leiknum í kvöld.
Katla Tryggvadóttir og Sandra María Jessen í leiknum í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

„Þetta er ótrúlega svekkjandi, þetta var alls ekki nógu góður leikur hjá okkur,“ sagði Álfhildur Rósa Kjartansdóttir fyrirliði Þrótt úr Reykjavík eftir 2:0 tap gegn Þór/KA í Laugardalnum í dag.

„Ég veit ekki hvort við vorum eitthvað stressaðar eða hvort við vorum að upplifa einhverja pressu en við bara gáfum þetta frá okkur,“ sagði Álfhildur í samtali við mbl.is eftir leikinn.

Þróttur er í samkeppni um Evrópusæti og hefðu með sigri í dag verið með jafn mörg stig og Blikar sem eru í 2. sæti en eru nú með 34 stig í 4. sæti.

Spilið gekk ekki mjög vel hjá Þrótturum og þær söknuðu augljóslega Katherine Cousins á miðjunni að stýra spilinu en hún er meidd.

„Það er rosalega erfitt að missa Katie, við höfum líka misst fleiri leikmenn í meiðsli en hún er frábær. Það er mjög erfitt að missa hana úr liðinu, hún heldur spilinu gangandi,“ sagði Álfhildur.

Þór/KA var með yfirhöndina í fyrri hálfleik en Þróttur náði að koma sér meira inn í leikinn það sem leið á en komu ekki boltanum í netið.

„Við ætluðum að þora meira að vera með boltann, vera með meira sjálfstraust og þora að spila en mér fannst það ekki ganga heldur upp í sinni hálfleik. 

Við áttum tímabil í sumar sem við skoruðum varla mark en við duttum svo aðeins í gír með það. Mér fannst við fá ágætis færi í þessum leik sem að við hefðum getað skorað úr og ég veit ekki hvað við þurfum að gera meira, við erum auðvitað að æfa þetta á fullu en þurfum að koma þessu inn í leiki,“ sagði Álfhildur.

mbl.is