„Aulalegt og klaufaskapur“

Jón Ingason í baráttu við Pétur Bjarnason hjá Fylki í …
Jón Ingason í baráttu við Pétur Bjarnason hjá Fylki í leiknum í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Fylkir og ÍBV skildu jöfn, 2:2, í fyrstu umferð neðri hlutans í Bestu deild karla í dag en ÍBV komst yfir í seinni hálfleiknum áður en Fylkismenn náðu inn jöfnunarmarki. Í viðtali við Mbl.is segir Jón Ingason að það hafi verið erfitt að fá á sig mark í byrjun en hefði þó verið til í stigin þrjú.

„Þetta eru blendnar tilfinningar, við byrjum þennan leik á hælunum og fáum þetta mark á okkur í byrjun sem var smá högg eftir góðan undirbúning síðustu tvær vikur. Við unnum úr því og unnum okkur inn í leikinn, jafn leikur og svolítið lokaður.“

Jafnteflið

ÍBV skoraði tvö mörk á stuttum kafla í seinni hálfleiknum og leit allt út fyrir að þeir myndu taka stigin þrjú en svo var ekki.

„Við komum til baka og skorum tvö mörk sem sýnir karakterinn sem býr í þessu liði og viljann og trúna sem við höfum á þetta verkefni sem er framundan. Að fá svo þetta mark á sig í lokinn er aulalegt og klaufaskapur að ná ekki að koma í veg fyrir það og sigla þessum sigri heim sem mér fannst við eiga skilið.“

Undanfarnar tvær vikur hefur Besta deildin verið í pásu vegna landsleikjahlés en Jón segir að liðið hafi nýtt tímann vel og æft mikið saman.

„Við nýttum þessar síðustu tvær vikur að æfa vel og þeir sem hafa verið að glíma við meiðsli hafa náð að vinna úr því. Hópurinn er samstilltur og allir á sömu blaðsíðu að róa í sömu átt. Stig hér í dag er ekki alslæmt en úr því sem komið var hefði verið gott að fá þrjú stig. Við höldum ótrauðir áfram og tökum sigur í næsta leik heima“.

Sterkir heima

Næsti leikur ÍBV er gegn Fram á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum og segir Jón að þar vilji þeir krækja í stigin þrjú

„Okkur hlakkar til að fá heimaleik og við þurfum að nota þá vel, við vitum að við erum gríðarlega sterkir á heimavelli og það er okkar vígi og við þurfum að mæta vel gíraðir og með fulla einbeitingu í þann leik. Ég hef fulla trú á því að við klárum þann leik. Nú er þetta allt úrslitaleikir og hver leikur skiptir gríðarlegu máli en það er samt alltaf bara næsti leikur og núna er það Fram sem við stefnum á að vinna.“

mbl.is