Basl og klúður en svo small þetta einhvern veginn

Þórdís Elva Ágústsdóttir var góð hjá Val í dag.
Þórdís Elva Ágústsdóttir var góð hjá Val í dag. mbl.is/Kristín Hallgrímsdóttir

„Við vorum svolítið lengi í gang í basli út um allan völl, klúðrum sendingum hér og þar svo þetta small einhvern veginn ekki allan leikinn en við erum með gæði til að klára færin inni í teig og það gerðum við í dag svo stigin þrjú voru okkar“ sagði Þórdís Elva Ágústsdóttir, sem átti mjög góðan leik fyrir Val í 3:1 sigri á FH þegar liðin mættust í 2. umferð efri hluta keppni efstu deildar Íslandsmótsins í fótbolta að Hlíðarenda í dag.

Valskonur voru í basli, hvort sem var þreyta eða annað en tóku svo á honum stóra sínum. „Við erum með þannig hóp að þegar við gerum skiptingar þá koma sterkir leikmenn inn svo að við getum haldið góðum gæðum inni á vellinum allan leikinn.  Við getum ekkert litið fram hjá því að það er þreyta í hópnum okkar, enda fjórir  leikir á ellefu dögum held ég.  Það er nú bara eins og það er, við verðum að klára  leikina en svo erum flestar að fara í landsliðsverkefni strax á morgun svo álagið heldur áfram.  Við erum samt alveg viðbúnar, erum með stóran hóp og til í allt.“

Nóg er framundan hjá mörgum leikmönnum Vals og um miðjan október heldur Evrópuæfintýrið áfram og það leggst vel í Þórdísi Elvu.  „Við förum í næsta Evrópuleik um leið og deildin er búin hérna og þetta er spennandi.  Við erum strax farnar að hugsa  og tala um það, getum notað leikina nú sem eftir eru til að undirbúa okkur fyrir það verkefni,“ sagði Þórdís Elva.

Náðum þessum með því að fækka mistökum

Amanda Jakobsen Andradóttir átti líka fína leik fyrir Val, skoraði fyrsta mark Valskvenna, sem hélt þeim inní leiknum og var í því að hrella vörn FH. „Ég veit ekki hvort við höfum verið þreyttar, stutt síðan við spiluðum síðasta leik en við byrjuðum leikinn með mikið af sendingamistök, sem var ekki gott. Ég held að við höfum svo komist meira inn í leikinn og náðum með færri mistökum að spila betur,“  sagði Amanda eftir leikinn.

Hún segir að fyrst þurfi að klára nokkra hluti en er spennt fyrir næsta Evrópuleik Vals.  „Við spiluðum síðasta leik fyrir nokkrum dögum en það nú bara skemmtilegast að spila leiki svo næsti Evrópuleikur leggst vel í mig, ég er mjög spenntur fyrir þessu verkefni.  Við erum samt ekki farnar að hugsa of mikið um hann, næst er landsliðið og síðan förum að undirbúa hann.“

mbl.is