Eina liðið sem þær áttu eftir að vinna

Sandra María Jessen í leiknum í dag.
Sandra María Jessen í leiknum í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

„Það er mikil orka með liðinu núna, við erum ekki bara búnar að vera að ná í góð úrslit við erum líkar búnar að vera að spila vel,“ sagði Sandra María Jessen, fyrirliði Þór/KA eftir 2:0 útisigur á Þrótt úr Reykjavík í dag í Bestu deild kvenna í knattspyrnu.

„Þróttur er mjög vel spilandi lið og eru eina liðið sem við höfum ekki unnið á tímabilinu og okkur langaði mjög mikið að vinna þær í dag. Við lögðum upp með að pressa þær ofarlega og vera þá nær markinu þeirra þegar við unnum boltann sem mér fannst ganga mjög vel. Við höfum verið að spila nýtt kerfi í síðustu tveimur leikjum sem virðist henta hópnum vel.

Við erum að vinna boltann ofar á vellinum, halda boltanum vel og lítum vel út núna og vonandi nær maður að halda áfram svona síðustu tvo leikina, það er möguleiki að klifra aðeins upp töfluna og allt í boði,“ sagði Sandra í viðtali við mbl.is eftir leikinn.

Þór/KA er í 5. sæti núna og einhverjir möguleikar eru á Evrópusæti en þó ekki miklir, Akureyraliðið er nú fimm stigum frá Breiðablik sem er í 2. sæti.

„Auðvitað er möguleiki á Evrópusæti og auðvitað er stefnan að fara eins langt og við getum en við förum bara í hvern leik til að ná í þrjú stig og svo sjáum við hverju það skilar okkur. Það er samt mjög gott að vita af því að Breiðablik hafi unnið Stjörnuna áðan,“ sagði Sandra.

mbl.is