Kjartan lemstraður og bíður eftir niðurstöðu

Kjartan Kári Halldórsson með FH gegn Breiðabliki.
Kjartan Kári Halldórsson með FH gegn Breiðabliki. mbl.is/Óttar Geirsson

Knattspyrnumaðurinn ungi Kjartan Kári Halldórsson fór af velli með sjúkrabíl þegar FH vann 2:0-útisigur á Breiðabliki í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld.

Kjartan lenti í samstuði við Anton Ara Einarsson í marki Breiðabliks um miðjan fyrri hálfleik og steinlá eftir. Eftir tæplega 20 mínútna aðhlynningu á vellinum var hann fluttur á spítala.

„Ég er ansi lemstraður. Ég var að koma úr sneiðmyndatöku og bíð eftir niðurstöðu úr henni. Ég veit ekki neitt meira en það,“ svaraði Kjartan þegar mbl.is hafði samband við hann eftir leik.

Hann er að glíma við verki í höfði og hálsi eftir atvikið og hefur lítið mátt hreyfa sig.

mbl.is